Spurning

Er Frímúrarareglan leynifélag?

Svar

Frímúrarareglan á Íslandi er ekki leynifélag. Lög og reglur hennar getur að lesa á almennum bókasöfnum ásamt margháttuðum öðrum upplýsingum um starfsemi og sögu frímúrara hérlendis og erlendis.
Félagatal og yfirlit um trúnaðarstöður og um skipulag Frímúrarareglunnar eru einnig fyrir hendi á opnum almennum vettvangi. Dagblöð birta tilkynningar um samkomur frímúrara, Stjórnstofa er í símaskrá og Frímúrarareglan hefur þessa vefsíðu sem öllum er opin.

Frímúrarareglan er lifandi þáttur í þjóðlífinu og víkst ekki undan þeirri ábyrgð sem slíku fylgir í opnu og lýðræðislegu nútímasamfélagi.

Frímúrarareglan býr yfir mikilvægum trúnaðarmálum sem tengjast sérstæðum og gamalgrónum fundarsköpum. Þessum fundarsköpum er ætlað að hafa óvænt og þroskandi áhrif á hugsun og líf þátttakenda, og margítrekuð reynsla kynslóðanna staðfestir gildi þeirra.

Frímúrarar líta á trúnað og þagnarheit sem sjálfsagðan hlut, enda vita þeir að slíkar skyldur eru alls ekki einsdæmi í starfi eða félagslífi yfirleitt.

Næði, trúnaður og réttur undirbúningur eru einmitt forsenda þeirra mannræktaráhrifa sem Frímúrarareglan á Íslandi stefnir að. Hluti undirbúningsins felst í því að þátttakendur kynnast boðskap og venjum félagsins í áföngum stig af stigi. Þannig verka félagsstörfin áfram á frímúrarann ár eftir ár eins og lífsins skóli.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is