Stórmeistari Reglunnar
Valur Valsson
Velkomin!
Frímúrarareglan á Íslandi var stofnuð þann 23. júlí árið 1951 en fyrsta frímúrarastúkan var stofnuð hér á landi 6. janúar 1919; það var St. Jóh.stúkan Edda, innan Den Danske Frimurerorden, og starfaði undir hennar vernd allt þar til formleg og sjálfstæð regla var stofnuð.
Frímúrarareglan á Íslandi er engum öðrum valdhöfum háð en löglegum yfirvöldum Íslands.
Leyndin sem yfir fundarsiðunum hvílir má segja að helgist fyrst og fremst af því að ef þeir væru öllum kunnir myndu fundir missa marks að verulegu leyti. Hér á landi er starfað eftir hinu svokallaða sænska kerfi en grundvallaratriði í því er að innsækjandi í regluna játi kristna trú.
Óhætt er að segja að félagar í Frímúrarareglunni á Íslandi séu þverskurður af þjóðfélaginu. Þeir eru hvorki betri né verri en aðrir þjóðfélagsþegnar og líta ekki á sig sem slíka en markmiðið með veru sinni í Reglunni telja þeir vera að reyna að verða betri þjóðfélagsþegnar til hagsbóta fyrir sjálfa sig, fjölskyldu sína og þjóðfélagið í heild.
Innan Frímúrarareglunnar á Íslandi rúmast allir góðir menn sem eru tilbúnir að játast undir þær skuldbindingar sem Reglan setur þeim og standa við þær.
Almennar upplýsingar:
Frímúrarareglan á Íslandi er sjálfstætt félag eða samtök karlmanna úr öllum hópum þjóðfélagsins sem hefur mannrækt að markmiði.
Frímúrarareglan byggir starfsemi sína á kristnum grundvelli.
Frímúrarareglan tekur ekki afstöðu í stjórnmála- eða trúardeilum í þjóðfélaginu. Umræður eða áróður um þessi mál er bannað á fundum eða samkomum Frímúrarareglunnar.
Frímúrarareglan á Íslandi er óháð öllum valdhöfum, öðrum en löglegum yfirvöldum Íslands.