Spurning

Hvað er Frímúrarakerfi ?

Svar

Í Frímúrarareglunni á Íslandi eru alls 11 stig en þannig er Reglunni skipt líkt og skóla er skipt í bekki og deildir.

Æðsti maður Frímúrarareglunnar er nefndur Stórmeistari Reglunnar.

Ekki starfa allar Frímúrarareglur samkvæmt sama kerfi. Í þeim Frímúrarareglum sem Frímúrarareglan á Íslandi viðurkennir eru grundvallaratriðin almennt þau sömu. Frímúrarareglan á Íslandi starfar eftir hinu svokallaða ,,sænska kerfi", en eftir því starfa einnig Frímúrarareglur í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og að hluta í Finnlandi og Þýskalandi. Náið og vinsamlegt samband er á milli Frímúrarareglnanna á Norðurlöndum.

Í Frímúrarareglunni á Íslandi eru nú um 3000 bræður og í öllum heiminum eru yfir 6 milljónir frímúrara. Frímúrarar eru flestir í Bandaríkjunum. Í einræðisríkjum er starfsemi frímúrarastúkna bönnuð. En þrátt fyrir það að hugmyndafræði Frímúrarareglunnar sé í sjálfu sér alþjóðleg eru ekki til nein alþjóðasamtök frímúrara.

Frímúrararegla eða Stórstúka í hverju landi er sjálfstæð og öðrum óháð.

Þrátt fyrir að Frímúrarareglur í hverju landi séu sjálfstæðar er góð samvinna á milli Frímúrarareglna flestra landa og geta íslenskir frímúrarabræður heimsótt erlendar stúkur sem viðurkenndar hafa verið af Frímúrarareglunni á Íslandi og bræður þessara stúkna geta komið í heimsókn í frímúrarastúkur hér á landi.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is