Spurning

Hvernig gerast menn félagar?

Svar

Hafi maður hug á að gerast félagi í Frímúrarareglunni, þarf hann að snúa sér til einhvers frímúrara sem þekkir hann, og getur sá ásamt öðrum frímúrarabróður sótt um inngöngu fyrir hann í Regluna. Nefnast þessir tveir frímúrarabræður meðmælendur og velja þeir þá stúku, sem sótt er um inngöngu í.

Maður sem ekki þekkir til neins frímúrara, getur snúið sér til skrifstofu Reglunnar, að Bríetartúni 5, Reykjavík, eða frímúrarastúku í heimabyggð hans, sem munu þá veita honum aðstoð við að finna bræður sem þekkja einhver deili á viðkomandi og væru hugsanlega tilbúnir að mæla með honum.

Þegar umsókn innsækjanda hefur verið lögð fram hefst biðtími. Er sá tími notaður til að athuga hvort það geti orðið innsækjandanum til góðs að ganga í Regluna, og einnig að fá fullvissu um, að Reglan vilji fá hann sem lífstíðarfélaga. Að biðtíma loknum fær innsækjandinn boð frá meðmælendum sínum um hvaða dag og hvaða tíma hann er kallaður til upptöku. Innsækjanda skal vera ljóst að umsókn hans getur verið hafnað.

Innsækjandi í Frímúrararegluna á Íslandi þarf að hafa náð 24 ára aldri, játa kristna trú, vera sjálfráður eigna sinna og hafa óflekkað mannorð.

Mikilvægt er að innsækjandanum sé ljóst, að skyldi honum snúast hugur, er honum frjálst að láta afturkalla umsókn sína allt fram að upptöku sinni. En þegar upptakan hefur farið fram, er yfirleitt ekki hægt að ganga úr Reglunni, nema í sérstökum tilvikum.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is