Ljósufjöll – sumar 2010

Það var hress hópur fjögurra systra og átta Gimlibræðra sem fóru í fjallgöngu laugardaginn 5. júní 2010.

Upprunalega hugmyndin var að fara á Fimmvörðuháls og hafði undirbúningur miðast við það. Fimmvörðuháls er nú lokaður göngufólki og því þurfti að finna aðra gönguleið. Ákveðið var að ganga um Ljósufjöll.

Hópurinn lagði af stað frá bænum Borg og gengið í norðurátt. Veður var hið besta, sól í heiði og yfir 10 stiga hiti, þannig að margir voru fljótir að hitna og fækka fötum. Gönguleiðin var fjölbreytt, gengið var meðal annars yfir mýri, læki, móa, mela, lausamöl, mosavaxið grjót, steinahlíðar, líparítsskriður og snjóskafla. Hækkun var róleg til að byrja með að hlíðum Ljósufjalla.

Menn snæddu saman nesti áður lagt var á mesta brattann. Töluverð hækkun var að fyrsta tindinum og var löng snjói lögð hlíð gengin. Fyrst var gengið upp á tindinn Grána og og svo strax á næsta tind Bleik. Þar dáðust menn að útsýninu og fjölbreyttri litadýrð Ljósufjalla.

Mun betra útsýni var í norður heldur en suður þar sem við sáum bera á öskumettuðu lofti. Í norðri sást vel til Vestfjarða, sem skörtuðu sínu fegursta, en nokkrir í hópnum hyggjast heimsækja Ísafjörð ásamt fleiri Gimlibræðrum og systrum á Jónsmessunni.

Smáskýjahula var yfir vesturhluta Snæfellsness og því sást Snæfellsjökull ekki. Hins vegar var útýni til austurs betra en þar sáust greinilega m.a. Skyrtunna og Hestur. Á tindinum höfðu menn á orði hvað það væri óvenjulegt að það skyldi vera logn.

Nokkrir ákváðu að fara líka á Miðtind í leiðinni en hinir hófu göngu niður norðurhlíðarnar, en mun meiri snjór var þar en í suðurhlíðunum. Hópurinn sameinaðist svo fljótlega og hélt göngu áfram þar til í Álftafjörð var komið.

Veðrið hélst hið besta alla leið en gangan tók alls 7-8 klukkutíma, gengnir voru rúmir 16 km og göguhækkun var tæpir 1.000 metrar. Að lokinni göngu var svo ánægjulegt að komast í laugina og pottinn við Laugagerðisskóla.

Frábærum degi lauk svo á góðri grillveislu og myndasýningu. Hópurinn var ákveðinn í að endurtaka leikinn seinna, enda eftir að klára göngu yfir Fimmvörðuháls.

Gönguferð á Ljósufjöll
Gönguferð á Ljósufjöll
Gönguferð á Ljósufjöll
Gönguferð á Ljósufjöll

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is