Fræðslunefnd leitar þýðenda

Vorið 2012 fékk Fræðslunefnd Frímúrarareglunnar mikið af nýjum fræðsluerindum að gjöf frá Fræðaráði dönsku Reglunnar. Nokkrir brr. hafa unnið að þýðingum á þeim en þó vantar fleiri til verksins.

Fræðsluerindin hafa verið gefin út á síðustu árum af DDFO, Informationsdirektoriet, “Kommittéen for Frimuriske Oplysning” (KFO). Efnið er mikið að vöxtum en gefið út í heftum eða bókum sem skipt er upp í stutt fræðsluerindi eða kafla. Í fyrstu sendingu eru ríflega 40 bækur á öllum stigum og því vel á annað hundrað erindi og kaflar. Þetta eru nýjar stigbækur, en einnig ný fræðsluerindi og hugvekjur sem gefin hafa verið út á síðustu árum undir gamla heitinu “Tanker & Taler”. Nýjustu erindin voru gefin út í nóvember 2011 og er þetta allt á góðri dönsku.

Í samráði við Oddvita Fræðaráðs hefur verið kallað eftir aðstoð þeirra bræðra sem treysta sér til að vinna að slíkum þýðingum og fá fleiri en færri að verkinu. Fræðslunefnd fer yfir þýðingarnar í samráði við þýðendur og gefur þær út til lestrar á bókasöfnum Reglunnar um allt land. Þær fyrstu eru þegar komnar út. Aðalþýðanda verður að sjálfsögðu getið. Samhliða þýðingarvinnunni getur þýðandinn einnig notað efnið til að semja sín eigin fræðsluerindi sem byggð eru á þessu nýja efni og öðrum heimildum.

Fyrsta árið hefur verður lögð áhersla á þessar þýðingar úr dönsku. Síðar á þessu ári mun einnig unnið að því að fá ný fræðsluerindi frá Noregi og Svíþjóð. Enn eru bræður hvattir til að láta Fræðslunefnd vita ef þeir hafa hug á að þýða annað fræðilegt efni, en það getur verið allt frá gömlum handritum til nýrra rannsóknarerinda, svo hægt verði að gefa það út í þágu bræðranna.

Þeir sem áhuga hafa á þessu þarfa verki og vilja leggja því lið, bæði varðandi þýðingar og aðra vinnu við útgáfu þeirra, eru beðnir að hafa samband við formann Fræðslunefndar, Kristján Björnsson, í síma 856 1592, hs. 481 1607 eða vs. 488 1501, eða senda línu á klerkur@simnet.is eða Hólagötu 42, 900 Vestmannaeyjum eða tala við aðra brr. í Fræðslunefnd.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is