Vel heppnuð Finnlandsferð.

Ferð Heklubræðra og systra til Åbo í Finnlandi tókst með afbrigðum vel. Eins og áður hefur komið fram er Hekla í samstarfi við St. Andrésarstúkurnar “De fire roser” í Árósum; “Björgvin” í Bergen; “De Tre Förenade Kronor” í Gautaborg svo og bræðrafélagið “Erasmus” í Finnlandi. Stúkurnar skiptast á um að halda vináttufundi Andrésarbræðra annað hvert ár. Fundunum er ætlað að veita bræðrunum innsýn í stúkustarfið í hverju landi fyrir sig. Jafnframt stuðla þeir að persónulegum kynnum bræðra og systra af öllum norðurlöndunum. Að þessu sinni voru þátttakendur um 190.

Fjórtán Heklubræður og þrettán systur héldu utan 19. ágúst og áttu stutta viðdvöl í Stokkhólmi. Með stuttum fyrirvara gafst tækifæri til að skoða Regluheimilið í Stokkhólmi, Bååtska palatset. Fengu bræðurnir þar einstaklega hlýlegar móttökur og fróðlega kynningu.

Um kvöldið var farið um borð í eina af þeim mörgu ferjum sem halda uppi siglingum á milli Svíþjóðar og Finnlands. Árla næsta morguns tóku finnsku brr. á móti hópnum á bryggjunni í Åbo og óku honum að Åbo kastala. Þar beið hlaðið borð alls kyns kræsinga. Að loknum morgunverði var haldið í skoðunarferð um borgina. Um kvöldið sóttu bræðurnir fund á IV/V stigi þar sem R&K Tom Bergroth og R&K Göran Andersson fluttu erindi auk þess sem flutt var tónlist. Systurnar nutu á meðan sérstakrar danssýningar sem Auradansflokkurinn hafði sett saman að þessu tilefni. Kvöldinu lauk með sameiginlegri máltíð bræðra og systra.

Snemma á laugardagsmorgun héldu síðan allir norrænu þátttakendurnir í ferðalag þar sem meðal annars var gengið um mýra- og skógarsvæði norðan við Åbo. Einnig var komið við í kirkjunni í Nousis og fræðst um heilagan Henrik sem skipar sérstakan sess í kristnisögu Finnlands. Um kvöldið var haldinn veglegur hátíðarkvöldverður í finnskum anda. Halldór Jóhannsson Stm. flutti í snjallri ræðu kveðjur frá Heklubræðrum og færði Erasmus bræðrum fána Heklu. Var fánastöngin greypt í tilhöggvið Heklugrjót. Þegar leið að lokum kvöldverðarins bauð Stm. St. Andr. stúkunnar Björgvin til næsta Andrésarmóts í Bergen 8. - 10. júní 2012.

Sérstaklega eftirminnileg var þátttaka í messu sænska safnaðarins á sunnudagsmorgun. Hún fór fram í hinni sögulegu dómkirkju borgarinnar og vakti athygli hversu söfnuðurinn tók virkan þátt. Að lokinni messu var haldin stutt kveðjuathöfn yfir hádegisverði. Þar var Andrésarmótinu formlega slitið.

Finnsku bræðurnir vildu þó ekki láta okkur Heklubræður lönd og leið meðan við biðum þess að ferjan flytti okkur aftur til Stokkhólms. Var því efnt til skoðunarferðar til Nådendalen og farið í siglingu um skerjagarðinn í miklu blíðskaparveðri. Komið var við í skipasmíðastöð sem er að leggja síðustu hönd á smíði stærsta skemmtiferðaskips veraldar. Skipasmíðarnar hafa verið veigamikill þáttur í atvinnulífi Åbo og nágrennis. Samdráttur í alþjóðlegu efnahagslífi hefur sett sitt mark á skipasmíðarnar og yfirvofandi er mikið atvinnuleysi í greininni ef svo heldur fram sem horfir.

Ávinningur vináttufunda sem þessa er ekki einungis fólginn í því sem fram kemur hér að ofan um tilgang þeirra. Sú einstæða upplifun og þær endurminningar sem hver og einn þátttakandi býr að alla æfi er ávinningur sem erfitt er að tíunda eða mæla.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is