Fimmvörðuhálsganga Gimli 2011

Nokkrar systur og bræður vöknuðu snemma laugardaginn 11 júní, enda stefnan sett á göngu frá Skógum yfir Fimmvörðuháls í Þórsmörk. Þessi ferð var búin að vera í undirbúningi í meir en eitt ár. Þegar fyrst var ákveðið að ganga vissu menn ekki af því að nokkrum mánuðum seinna hófst eldgos á Fimmvörðuhálsi þannig að fresta varð förinni.

Hluti gönguhópsins safnaðist saman við Regluheimilið við Skúlagötu og settist upp í langferðabifreið. Byrjað var á því að stöðva við Rauðavatn og ná í hinn hluta hópsins. Lífinu var tekið rólega á leiðinni austur og menn spáðu í veðrið á hálsinum en spáð hafði verið úrkomu seinna um daginn.

Þegar að Skógum var komið var þar ágætasta veður og menn reimuðu á sig gönguskó, klæddust viðeigandi fatnaði og settu upp bakpoka.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_ebc11ea.jpg

Mynd 1 Hópurinn við Skógafoss

Fyrsti hluti gögnunnar er sá brattasti en þar var að komast upp með Skógarfossi. Það er búið að útbúa töppur þá leið til að hlífa gróðrinum á þessum stað og létta gönguna. Þegar upp var komið á brúnina var gengið með eystri bakka Skógár. Þar kom í ljós að Skógarfoss er ekki eini fossinn í Skógá heldur eru þeir á þriðja tug. Þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum en hver um sig fallegur á sinn hátt.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m102a6ba.jpg

Mynd 2 Fjöldi fossa prýðir þessa fallegu leið

Veðrið hélst þurrt og gott á þessum hluta leiðarinnar og gáfum menn sér tíma til að dást að fegurð náttúrunnar.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m4a18fe5e.jpg

Mynd 3 Hver öðrum fallegri

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m1e717164.jpg

Ofarlega á Skógá er há göngubrú, sem minnir menn á að áin getur verið mikil og hættuleg. Þá tekur við ganga upp heiðina að Baldvinsskála.

Nú rættist veðurspáin, vindur jókst og það byrjaði að rigna. Nú voru menn komnir þar hátt að byrjað var að ganga í snjó. Þarna mátti sjá glögglega ösku úr Grímsvatnagosinu þar sem hún lá á eldri snjóa- og klakalögum. Það mátti einnig sjá hvar nýfallinn og óbráðinn mjallarhvítur snjór lá ofan á eldri snjóalögum. Náttúran getur verið falleg og fjölbreytt þó að hún er aðeins svört og hvít.

Hópurinn var feginn að komast upp í Baldvinsskála þó að hann sé orðinn gamall og óvistlegur. Hann heldur þó bæði vatni og vindi. Því var áð þar og hádegismatur snæddur.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_46f05a1e.jpg

Mynd 4 Baldvinsskáli eða Fúkki

Svo var haldið áfram yfir jökulinn og komið að nýju eldfjöllunum Magna og Móða.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m5cea6918.jpg

Mynd 5 Magni

Þar mættum við hóp ferðalanga sem höfðu komið akandi á jeppum að eldfjöllunum. Flestir stóðust ekki mátið og gengu upp á Magna. Þar er enn þá heit jörð. Sannaðist það er menn grilluðu pylsur yfir holu á fjallinu því þær sprungu eftir örfáar sekúndur í hitanum.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_53a08c3b.jpg

Mynd 6 Óvænt pylsuveisla

Stikaða gönguleiðin lá svo meðfram rótum eldfjallsins. Það var magnað að hafa heitt eldfjallið á vinstri hönd og svo kaldan jökulinn á hægri hönd. Ísland stóð þar greinilega undir því að vera land elds og ísa. Þegar yfir hálsinn er komið er gengið niður Bröttufönn, yfir Heljarkamb og á Morinsheiði. Þá sáum við vel niður í Þórsmörk og úrkoman hætti. Leiðin niður var svo þægileg þó svo varlega þurfti að fara yfir Kattarhryggi.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m736c7608.jpg

Mynd 7 Séð niður í Bása

Það var því þreyttur og ánægður hópur sem kom niður í Bása. Þar kom langferðabifreiðin og sótti okkur og keyrði okkur yfir í Húsadal.

Menn drifu sig í sturtu og gerðu sig klára fyrir kvöldið. Það var við hæfi að grilla og tóku menn svo óspart til matar síns. Við matarborðið var svo setið yfir spjalli og sungið undir gítarspili. Þegar líða tók á kvöldið fóru menn í háttinn meðan aðrir héldu spjalli áfram fram í fagra nóttina.

Þegar menn vöknuðu á sunnudagsmorgninum skein sól á heiðum himni. Flestir tóku sig til og gengu léttklæddir yfir í Langadal og dáðust að fegurðinni þar.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_473f7d11.jpg

Mynd 8 Komið í Langadal

Þegar menn höfðu gengið til baka var lagt heim á leið. Göngu dagsins var ekki lokið. Stoppað var við Nauthúsagil. Allir höfðu keyrt fram hjá því en aðeins nokkrir gengið inn gilið.. Það er mjög þröngt og þarf að stikla oft á steinum yfir Nauthúsaá sem rennur um það.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_m305ced07.jpg

Mynd 9 Stikklað á steinum inn Nausthúsagil

Eftir stutta en hægfarna göngu er komið að ægifögrum háum fossi og þeir sem voru að koma þarna í fyrsta sinn sáu ekki þessum sporum.

fimmvorduhals_gimli_2011_html_6047864c.jpg

Mynd 10 Rúsínan í pylsuendanum

Því næst var ekið til höfuðborgarinnar með stoppi á Hvolsvelli. Það var síðan ánægður hópur sem kom svo á miðjum hvítasunnudeginum til Reykjavíkur eftir ógleymanlega ferð.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is