Jónsmessuferð Gimlibræðra og fjölskyldna þeirra.

Það var á síðastliðnum vetri að ákveðið var að efna til fjölskylduferðar vestur á Ísafjörð og nágrenni. Aðal verkefni ferðarinnar skyldi vera að fara á Jónsmessufund hjá St.Jóh.St. Njálu. Einnig ætluðum við að ferðast um og skoða hina stórbrotnu náttúru Vestfjarða.

Þegar nær dróg fundardeginum, sem auglýstur hafði verið fimmtudaginn 24. júní fréttist það suður í hana Reykjavík að af hagkvæmnisástæðum, eins og það var kallað, væri búið að færa fundinn til föstudagsins 25. og jafnframt að bræður okkar á Ísafirði ætluðu, eftir fundinn, að bjóða upp á sameiginlega máltíð með systrunum.

Ákveðið var að fara vestur á eigin bílum og stefnt að því að allir væru komnir vestur á fimmtudagskvöldi.

Það var svo síðdegis á miðvikudeginum 23. júní að afloknum vinnudegi að greinarhöfundur dreif sig af stað til að ná því að verða, helst, aðeins á undan aðal straumnum enda hafði hann verið skipaður “fararstjóri” ferðarinnar.

Það var svo á fimmdeginum 24. júní, er líða tók á daginn, sem bræðurnir flykktust til Flateyrar hver á fætur öðrum í blíðskaparveðri, þetta var bjartur og fagur dagur og “veðrið lék við hvurn sinn fingur”.

Nokkrir höfðu fengið innigistingu en aðrir slógu upp tjaldbúðum á tjaldstæðinu á Flateyri, sem skyldi vera bækistöð okkar þessa daga sem framundan voru. Það var ekki í kot vísað þar sem amk. ein 8 sérbýli, tjaldvagnar og fellihýsi af ýmsum gerðum, með svefnálmu og dagstofu, kúrðu í öruggu skjóli undir snjóvarnargarðinum, sem ýtt hefur verið upp í hlíð Eyrarfjalls.

Að kvöldi fimmtudagsins, eftir að hópurinn hafði snætt kvöldverð, ýmisst í Vagninum, hinum sögufræga veitingastað staðarins, sem að sögn þess er upphaflega stofnaði staðinn Guðbjartar Jónssonar, “er staður á undan sinni framtíð”, eða á tjaldstæðinu, safnaðist allur hópurinn saman á tjaldstæðinu og hélt stutta en góða afmælishátíð. Haraldur Sm. (nr. 571) var 45 ára og var honum að sjálfsögðu færð gjöf í tilefni dagsins og þáðu afmælisgestir hinar ágætustu veitingar. Að afmælisveislu lokinni hófs hin eiginlega dagskrá fararinnar með útsýnisferð um Flateyri undir styrkri stjórn heimamanna Sigurðar og Eiríks fyrrum Stm. Njálu. Byrjað var á því að fara upp á snjóvarnargarðinn að útsýnisskífu, þar sem sér yfir allan fjörðinn, og lýsti Eiríkur þar staðháttum og hvar hið ægilega sjnóflóð er féll á eyrina hafði oltið fram. Síðan var gengið niður á eyri, komið við í kirkjunni og ýmsar sögur sagðar af skrautlegum karakterum, bæði lærðum og leikmönnum, skoðuð elstu hús staðarins ma. Bergshús og þótti Stm vorum það ekki leiðinlegt nafn á húsi, komið við í harðfiskvinnslu hjá Einari og Guðrúnu og keypti fólk sér þar bæði harðfisk og hákarl, litið var á “sumarhöll” skrifstofustjóra Reglunnar og ýmislegt fleira skemmtilegt gert.

Að morgni föstudagsins 25. var mæting kl. 9:00 við “Essó sjoppuna” nú skyldi haldið í dagsferð vestur í Dýrafjörð og Arnarfjörð. Málvenja á svæðinu ræður því að maður fer vestur til Þingeyrar en norður til Ísafjarðar þó svo að þar sé nánast um gagnstæðar áttir að ræða.

Farið var frá Flateyri um kl. 9:15 og ekið sem leið lá inn Önundarfjörð og “vestur” yfir Gemlufallsheiði til Dýrafjarðar og stoppað stutta stund á Þingeyri til að jafna hópinn.

Frá Þingeyri var ekið út með firðinum að vestanverðu fyrst fyrir Kirkjubólsdal, þá Meðaldal og Haukadal, þar sem Gísli Súrson átti bú sitt forðum. Upp af Haukadal gnæfir hæsta fjall Vestfjarða Kaldbakur 998 m.hátt . Ekki var numið staðar fyrr en komið var út í Keldudal. Að Hrauni í Keldudal er lítil sveitakirkja, yfir dalnum er sérstakt fjall sem heitir Hundshorn og var nokkuð spáð og spekúlerað í því og ýmsu öðru í umhverfinu. Þarna mættum við einu bílunum sem við mættum á leið okkar fyrir Sléttanesið og var það gott því þarna er nóg landrými til að mæta bílum. Tók nú brátt við mjór vegur meitlaður í bergið um svo kallaðar Hrafnholur undir Hraunshlíð, þar er ekki þægilegt að þurfa að mæta mörgum bílum, vegarslóðinn rétt fyrir einn bíl eða svo. Þarna stoppuðum við um stund og nutum hins frábæra veðurs og fegurðar sköpunarverksins, snarbrattur hamraveggurinn fyrir ofan okkur og neðan, hafið og himininn og sjófuglinn sveimaði yfir, og við nokkrar agnarsmáar mannverur, á þrettán bílum, sem mjökuðumst í rólegheitunum eftir þessum mjóa vegi.

Utan við Keldudal heitir Hafnarófæra og innan við hann Eyrarófæra. Fyrir daga vélbáta og ökutækja var löng og erfið leið í kaupstað úr Svalvogum inn á Þingeyri. Ekkert var hægt að flytja á hestum því Eyrarófæra var jafnan talin illfær eða ófær. Vegalengdin frá Svalvogum inn að Þingeyri er liðlega 20 km. löng og allan kaupstaðavarning þurftu Svalvogamenn að flytja heim til sín á sjó eða bera á bakinu og hið sama gilti um afurðirnar sem inn voru lagðar hjá versluninni á Þingeyri. Að sumri til tók um 5 tíma að ganga inn að Þingeyri en að vetri til mun lengri tíma. Ekki þótti tiltökumál að bera 40 kíló á sjálfum sér, alla þessa leið.

Yst er Dýrafjörðurinn um 9 km breiður og sér þar yfir á Fjallaskaga (þar er viti) en þaðan var útræði bænda norðanmegin í firðinum framan af síðustu öld.

Ekið var áfram fyrir Hafnarnes um Kögur og í Svalvoga og áð við Svalvogahamar. Ekki var fegurðin minni þar en annarsstaðar á þessari leið. Brimsvorfnir klettar og hvítur skeljasandur, sjórinn svo fallega blár að manni fannst maður vera kominn á sólarströnd og langaði helst til að kasta sér til sunds, en það er nú kannski ekki alveg ráðlegt svona úti við hið ysta haf. Áfram var haldið fyrir Sléttanesið sjálft og hallar þá orðið inn með Arnarfirði. Nafnið Sléttanes á ekki aðeins við um nesið og bæinn sem þar stóð áður og fyrr. Það hefur einnig verið haft um ysta hluta skagans alls milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Svo hefur verið frá fornu og má segja frá því að í Sturlungu er talað um Selvoga á Sléttanesi.

Í Lokinhamradal gnæfir hið ægifagra, egghvassa, fjall, Skeggi yfir dalnum. Í túnjaðrinum á Aðalbóli settumst við niður og nærðum okkur, enda komið fram yfir hádegi og ferðalangar orðnir svangir.

Skömmu eftir að ekið er frá Aðalbóli beygir vegurinn niður í fjöru og er ekið nokkurn spöl í fjörunni með hamravegginn slútandi yfir höfði manns. Þar heita Sléttubjörg og Skútabjörg. Elís Kjaran bóndi frá Kjaranstöðum í Dýrafirði lagði stóran hluta þessa vegar nær einn á lítilli jarðýtu. Hann segir svo frá í bók sinni Nokkur kvæði, og kitlandi vísur að vestan. “Það er nú á vitorði flestra sem vilja vita að vegurinn úr Keldudal um Svalvoga í Lokinhamradal er orðinn til fyrir mína hörku og þrjósku. Vegagerðin hefur borgað meiri partinn af því verki. En vegurinn frá Lokinhömrum að Stapadal hefur ekki fengið náð fyrir augum Vegagerðarinnar hvað fjárframlög varðar enda að stærstum hluta áhugamanns framkvæmd og sjálfboðavinna. Ég hitti eitt sinn fjárlaga nefnd hins háa Alþingis, hún var á ferð um Vestfirði, kom við á Hrafnseyri. Hjálmar séra var þar með, svo mér fannst upplagt að ávarpa þá:

Fjárlaganefndin fer um byggð
finnst mér því rétt að biðja.
Ef finndist hér einn með frjálsa dyggð
sem framtak mitt vildi styðja.

Brautryðjandi í brattri hlíð
biður um stuðningshendur.
Við himin gnæfandi fjöllin fríð
og Frónbúans undirlendur.

Hjálmar svaraði mér með léttri vísu sem ég hef því miður týnt. Meira varð ekki úr þessu, nema ég þakkaði fyrir svarið” (Elís Kjaran, Nokkur kvæði og kitlandi vísur að vestan bls. 83)

Eftir að komið er fyrir björgin og framhjá Stapadal og Stapa, stórum steini sjávarmegin við veginn, tekur brátt við betri vegur. Nokkur örnefni má nefna; Fossdalur, Krákudalur, Álftamýri, Baulhúsadalur, Baulhúsahyrna og Baulhúsaskriður, Tjaldanes og bærinn Auðkúla. Komið var við að Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, sem klárlega er í Arnarfirði og litið við á safninu. Enn var ekið af stað og nú um Hrafnseyrarheiði til Þingeyrar, og var þá hringnum lokað. Áfram sömuleið og fyrr um morguninn til baka til Flateyrar og endað í kaffi og marenstertu í Purkunni, handverks- og kaffihúsi Önfirskra kvenna.

Nú var klukkan orðin um 16:00 og góður tími til að græja sig fyrir kvöldið, skola af sér ferðaryk dagsins og fara í kjólinn því að framundan var fundurinn á Ísafirði, sem var jú aðaltilgangur ferðar okkar.

Systrunum var boðið í óvissuferð á meðan við bræðurnir sátum fundinn og nutu þær þar gestrisni og velvilja hinna vesfirsku vina okkar

Alls mættu 21 Gimlibróðir til fundarins, sem fór hið besta fram. Eftir fundinn var sameiginleg máltíð systra og bræðra og fengum við að njóta ungra og efnilegra tónlistarmanna frá Ísafirði, sem léku fyrir okkur nokkur djasslög.

Það voru dasaðir en ánægðir ferðalangar sem keyrðu heim til Flateyrar, í náttstað, um miðnæturskeið, sólin dansaði á fjallatoppunum við undirleik náttúrunnar, einn frábær dagur enn var að kvöldi kominn. Kæru Njálubræður, allir sem einn, hafið hinar bestu þakkir fyrir frábærar móttökur.

Laugardagurinn var “frjáls” dagur, engin sérstök dagskrá önnur en sú að um kvöldið hittist þannig á að halda átti götuhátíð í Ólafstúninu á Flateyri og ætluðaði hópurinn að taka þátt í henni. Bræður og systur notuðu hið frábæra veður, sem enn lék við hvurn sinn fingur, og fóru um nærsveitir. Einhverjir fóru út á Sand (Ingjaldssand), í Súgandafjörð, Hnífsdal, Bolungarvík og Ísafjörð. Einhverjir fóru í bátsferð út í Vigur á Ísafjarðardjúpi.

Um klukkan 19:00 hófst götuhátíðin með því að hver og einn kom með sínar steikur og grilluðu saman. Búið var að setja upp ein 10 grill, eða svo, sem biðu brennandi heit eftir að steikja næstu stórsteikina. Skemmtiatriði voru fyrir krakkana, keppni í kókosbolluáti og kókdrykkju, söngvarakeppni og ýmislegt fleira var gert til skemmtunar. Þá lék líka hljómsveit nokkur lög. Og auðvitað tóku bræður og systur virkan þátt í gleðskapnum og sungu og trölluðu fram eftir nóttu.

Á sunnudeginum, upp úr hádegi, eftir að fólk hafði hvílst héldum við heim á leið. Frábær helgi var á enda. Allir komu heilir heim. Veðrið hafði verið frábært allan tímann, sól og heiðríkja, sem hjálpaði til við að gera góða ferð enn betri.

Bræður mínir og systur við Ester þökkum ykkur kærlega fyrir frábæra ferð.

Hallmundur Vm. (nr. 540).

Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra
Jónsmessuferð Gimlisbræðra og fjölskyldna þeirra

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is