Jónsmessuferð Gimli 2011

Það var á vordögum 2011 að STM Gimli ákvað að efna til hópferðar stúkubræðra og þeirra fjölskyldna til Akureyrar í tenglum við Jónsmessufund Rúnar á Akureyri.


20-30 manna hópur Gimlibræðra mætti á föstudeginum 24. júní til fundarins í regluheimilinu á Akureyri. Á meðan á fundinum stóð tóku Rúnar-rósir á móti systrunum og fóru með þær í skemmtilega óvissuferð um Akureyri og nágrenni og var gerður mjög góður rómur að þeirri ferð, ma. var Safnasafnið skoðað ásamt bruggverksmiðju þar sem Vikingbjór er bruggaður.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m7172eb71.gif


Að fundi loknum efndu Rúnarbræður svo til siglingar um Eyjafjörð með Húna II. Siglingin tóks vel og var kátt á hjalla um borð. Veðrið hefði mátt vera betra, vindgustur var og fremur kallt og varð fólk að beita ýmsum meðulum til að ná upp hita í kroppinn.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m7aebe3e1.gif


Á laugardeginum 25. var fyrirhugað að fara í bíltúr um “göngin þrjú” frá Akureyri um Múlagöng til Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðargöng til Héðinsfjarðar og áfram til Siglufjarðar.

Skaginn á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar er nefndur Tröllaskagi. Þetta er einn hrikalegasti hluti Íslands. Inn í hann skerast langir og djúpir dalir. Milli þeirra eru há fjöll með hvassbrýndum hamrabrúnum og tindum. Yst á skaganum gengur Héðinsfjörður inn í þennan skaga og til sitt hvorrar handar eru Siglufjörður að vestan, en Ólafsfjörður að austan. Inn af þessum fjörðum ganga stuttir dalir, en fjöll beggja vegna þeirra ganga standberg í sjó fram. Áður en kom til vegagerðar með allri þeirri tækni sem henni fylgir var varla um nokkrar aðrar samgöngur að ræða en af sjó og yfir hin háu og bröttu fjallaskörð. Fyrr var byggð í öllum þessum fjörðum, en þegar kom fram á þessa öld breyttust aðstæður. Þéttbýli tók að myndast á Siglufirði og Ólafsfirði, en byggð lagðist af 1951 í Héðinsfirði þegar síðasti ábúandinn, Sigurður Björnsson ásamt móður sinni Önnu Lilju Sigurðardóttur og systkinum hans, fluttu þaðan burt frá bænum Vík, en þá höfðu þau búið ein í Héðinsfirði frá 1949.


Lagt var af stað upp úr hádegi frá regluheimilinu og stefnan tekin út með Eyjafirðinum. Sem fyrr var fremur kalt í veðri en þurrt og bjart og var útsýni því ágætt. Ekið var, sem leið lá, til Ólafsfjarðar í gegnum fyrstu göngin, í gegnum Ólafsfjarðarmúla, og áð við bæinn Hlíð í Ólafsfirði. Í Hlíð er rekin fiskeldisstöð, þar sem alinn er silungur og unninn til neytenda, reyktur og/eða grafinn. Í Hlíð búa tengdaforelrar fráfarandi SM stúkunnar. Tekið var á móti hópnum af heimafólki og starfsemin kynnt og var okkur sýnd aðstaða fiskeldisins, sem starfræt er í aflagðri hlöðu, og fiskvinnslunnar, sem starfrækt er í áföstum húsum. Voru móttökur höfðinglegar, boðið upp á kaffi og reyktan og grafinn fisk til að smakka á framleiðslunni. Var það samdóma álit gestanna að fiskurinn væri mikið lostæti. Kærar þakkir frá okkur ferðalöngum til heimafólks og annarra sem stóðu að þessum frábæru móttökum.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m21166060.gif


Að skoðun, smakki og verslun lokinni hélt hópurinn svo áfram sem leið lá í gegnum Héðinsfarðargöng í átt til Siglufjarðar.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m7b3537a4.gif


Vinna við gerð Héðinsfjarðarganga hófst 2006 en þau liggja í tveimur leggjum, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar með viðkomu í Héðinsfirði. Göngin voru opnuð 2.10.2010. Vegalengdin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um göngin er um 15 km. löng. Leggurinn milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar er 7,1 km. en leggurinn milli Héðinsfjarðar og Siglufjarðar er 3,9 km. eða samtals 11 km. göng.


Héðinsfjörður er tæplega 6 km. langur, hann er nú í eyði. Fjörðurinn er nyrst á Tröllaskaga á milli Hestfjalls (536 m. hátt) að vestan og Hvanndalabyrðu (624 m. hátt) að austan.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_6b3022cd.gif


Sennilegt er talið að byggð hafi hafist í Héðinsfirði strax á landnámsöld. Landnámabók greinir frá landnámsmönnunum Þormóði ramma í Siglufirði og Ólafi bekk í Ólafsfirði. Í sömu heimild segir að þeir Ólafur og Þormóður hafi deilt um Hvanndali og tókust ekki sættir með þeim fyrr en Þormóður hafði vegið sextán menn. Heimildir geta þess að byggð hafi oft lagst í eyði í Héðinsfirði sökum farsótta og harðinda en hafist fljótlega aftur við batnandi árferði. Hólastóll eignaðist fjörðinn snemma og nýttu Hólamenn hlunnindi hans, einkum rekann og sumarbeit fyrir geldneyti. Þrátt fyrir þetta munu oftast hafa verið fimm til sex bæir í byggð þótt vitað sé um fleiri er voru byggðir um stundarsakir. Á 19. öld var jafnan búið á bæjunum Vík, Vatnsenda, Grundarkoti, Möðruvöllum og Ámá. Samkvæmt manntalsbókum voru þá fjörutíu til fimmtíu manns heimilisfastir í dalnum. Mestur búskapur var í Vík sem stendur við fjörðinn austanverðan. Þar var jafnan tvíbýli og mannmargt, fimmtán til tuttugu manns. Við Vík var aðallendingin, en það sem háði Héðinsfirðingum mest var hversu lendingarskilyrði voru slæm og sjósókn því miklum erfiðleikum bundin. Byggðin hafði þó margt til síns ágætis á meðan enn var búið þar á forna vísu. Þar er gróðursæld mikil og ýmis hlunnindi önnur til lands og sjávar.


Fyrir botni fjarðarins er Héðinsfjarðarvatn, ágætt veiðivatn. Næsta byggð í vestri er Siglufjörður og voru áður fjölfarnar leiðir þangað úr firðinum bæði um Hestskarð og Hólsskarð. Til austurs var mest farið um Fossabrekkur til Ólafsfjarðar.


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m17735ea0.gif


Hópurinn stoppaði við upplýsingaskilti í Héðinsfirði þar sem ýmisan fróðleik má sjá um fjörðinn og viðburði, sem þar hafa átt sér stað. Meðal annars er þar sagt frá mannskæðasta flugslysi á Íslandi, sem varð 29. maí 1947, þegar áætlunarflugvél frá Flugfélagi Íslands frá Reykjavík til Akureyrar flaug á utanvert Hestfjall við Vogatorfur, vestanmegin fjarðarins, í svarta þoku. Allir sem í vélinni voru létust alls 25 manns, 21 farþegi og 4 manna áhöfn. Þetta er eiginlega eini staðurinn í fjallinu þar sem flugvélarflakið gat stöðvast því alstaðar annarstaðar eru þverhníptir klettar í sjó fram.


Eins og margir vita er utanverður Tröllaskagi einn snjóþyngsti hluti landsins. Miklir mannskaðar urðu í snjóflóðum í vikunni fyrir páska árið 1919, bæði við Siglufjörð og í Héðinsfirði. En þá fór snjóflóð á síldarverksmiðju Gustav Evangers norsks athafnamanns, sem stóð austan fjarðar í Siglufirði, og tvö íbúðarhús sem búið var í, síldarhús Olavs Evangers ásamt bryggjum og síldarplönum. Einnig tók flóðið tvo bæi, Neðri-Skúta og Bensabæ, en í þeim báðum var búið. Öll þessi mannvirki sópuðust út á sjó. Snjóflóðið gekk þvert yfir fjörðinn, þeim megin sem Siglufjarðarbær er og mölbraut þar margar bryggjur og báta. Þarna fórust alls níu manns í þessu eina snjóflóði. Talið er að sama dag hafi fallið snjóflóð á bæinn í Engidal en hann er einn af Dalabæjunum vestan Siglufjarðar. Þar fórust alls sjö manns úr sömu fjölskyldunni. Sama dag og snjóflóðin féllu í Siglufirði, féllu tvö snjóflóð í Héðinsfirði. Í þessari páskaviku árið 1919 fórust alls átján manns í snjóflóðum í þessum byggðum á Tröllaskaga.


Oft skall þó hurð nærri hælum er menn voru að fara yfir skörðin til að afla nauðþurfta og sækja læknishjálp. Sem dæmi um slíkt tilvik er eftirfarandi kafli úr bókinni Íslenskar kvenhetjur eftir Guðrúnu Björnsdóttur frá Kornsá, en þar segir frá ferð Jakobínu Stær ljósmóður í Siglufirði er hún fór yfir Hestskarð að vetri til, en hún þjónaði einnig Héðinsfirði. “Eitt sinn lá við að Jakobína og förunautar hennar slyppu ekki lífs yfir Hestskarð. Fönn hafði kyngt niður dag eftir dag. En í sama mund og upp stytti, lagðist kona á sæng í Héðinsfirði. Sýnilega var varasamt að fara yfir fjallið vegna snjóflóðahættu en aðra leið var ekki hægt að komast. Eftir nokkra ráðstefnu lögðu þó tveir gætnustu og færustu bændurnir úr Héðinsfirði af stað til þess að sækja ljósmóðurina. Þeir komust klakklaust yfir, en sáu, að snjóhengjan lá þannig á Hestskarði að hættan var sívaxandi á, að hún springi fram þá og þegar. Þegar þeir komu að Saurbæ í Siglufirði sögðu þeir Jakobínu Stær allt eins og var, hvað hættan væri mikil og þau tefldu öll lífi sínu í tvísýnu með því að fara yfir fjallið, en líka væri von um að sleppa með því að gæta sérstakrar varfærni. Þeir vildu samt ekki biðja hana að fara eins og útlitið væri, en legðu allt á hennar vald.- “Ef við förum ekki teflum við lífi konunnar og barnsins í hættu,” sagði hún og fór þegar að tygja sig. Engum tíma mátti eyða og hröðuðu þau sér af stað og gátu notað skíði að skarðinu. Hengjan var nú enn ískyggilegri en áður, og brekkan svo snarbrött, að hún stóð með manni. Þau stönsuðu augnablik áður en þau lögðu í hana, blésu mæðinni, og gerðu bæn sína og fylgdarmennirnir lögðu ráðin á. Svo brött sem brekkan var, mátti til með að fara hana beint upp. Væri hún skásneidd var meiri hætta á, að hún springi fram. Þau yrðu að fara hvert á eftir öðru í sömu förin og tengja sig saman með reipi. Stranglega tóku þau vara á því að tala á meðan þau voru á leiðinni upp og allra síst að kalla. Jafnvel hljóðöldur gætu riðið baggamuninn og sprengt hengjuna. Þarna klöngruðust þau upp steinþegjandi og hnitmiðandi hvert spor með sem jöfnustum hraða. Og tæpara mátti það sannarlega heldur ekki standa, því að um leið og þau stönsuðu á hábrúninni á Hestskarði sennilega hefur eitthvert þeirra stappað þar af sér sprakk hengjan og ógurlegt snjóflóð æddi niður hlíðina með dunum og dynkjum. Svo djúp áhrif hafði þetta á ferðafólkið, að þau féllu öll á kné sem einn maður og þökkuðu guði.”


ferd_gimli_a_jonsmessufund_2011_html_m162bd9e0.gif


Að lokinni áningu í Héðinsfirði var haldið áfram til Siglufjarðar. Á Siglufirði spókuðu bræður og systur sig um bæinn að eigin vild, fóru á söfn og kaffihús. Síðdegis var svo haldið á ný til Akureyrar því um kvöldið voru fyrirhuguð veisluhöld með Rúnarbræðrum og systrum í regluheimilinu. Ekki er að því að spyrja að þeir Rúnarbræður kunna að taka á móti gestum, það er ekki spurning. Slegið var upp dansiballi í regluheimilinu og varð af hin besta skemmtan, svifu þar bræður um gólf með fagrar systurnar sér í fangi við undirleik hljómborðs og gítars. Á sunnudeginum 26. héldum við Gimlibræður svo hver til síns heima, sumir í sumarleyfi og á ferð um landið, aðrir heim á leið í átt til Reykjavíkursvæðisins.


Kæru Rúnarbræður og systur kærar þakkir fyrir frábærar móttökur.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is