Ferð Mælifellsbræðra til Stokkhólms 25-29 nóvember 2011

Maelifell

Það var á fyrsta fundi haustið 2010 að stólmeistari St.Jóh.st. Mælifells Sveinbjörn Ó Ragnarsson kynnti þá hugmynd sína að það væri verðugt verkefni fyrir Mælifellsbræður að þeir ásamt systrunum færu í heimsókn til St.Jóh.stúku í Stokkhólmi að ári liðnu. Þessi hugmynd fékk strax góðar viðtökur og var mikið rædd á næstu fundum. Fljótlega var br. Steindór Haraldsson skipaður í það verk að skipuleggja og koma þessari heimsókn á væri það nokkur kostur. Það er skemmst frá því að segja að eftir að leyfi hafði borist frá aðalskrifstofu Frímúrarareglunnar á Íslandi, komst á gott samband við aðalembættismenn hjá St. Jóh. st. Den Nordiska Första í Stokkhólmi. Eftir nokkrar samræður var ákveðið að St.Jóh.st. Mælifell færi í opinbera heimsókn til St. Jóh. st. Den Nordiska Första þann 28. nóvember 2011.

Það var svo góður og glaðbeittur hópur Mælifellsbræðra og systra sem mætti í flugstöð Leifs Eiríkssonar föstudaginn 25. nóvember s.l. Einhverjir voru nývaknaðir og höfðu bara ekið frá Hótel Keflavík þá um morguninn en aðrir höfðu verið á ferðinni alla nóttina norðan úr landi. Það skein gleði og eftirvænting úr hverju andliti þegar menn hittust og heilsuðust í flugstöðinni og fengu sér morgunverð í biðsalnum. Það var nefnilega verð að fara til Stokkhólms meðal annars til að hitta bræður okkar í Den Nordiska Första S:t Johannislogen, fara á fund með þeim og skoða húsakynni þeirra.

Flugið gekk að óskum og við lentum um kl 11:40 á Arlanda flugvelli við Stokkhólm. Þaðan var ekið áleiðis til miðbæjarins að hóteli sem við síðan dvöldum á þessa daga, Scandic Norra Bantorget við Wallingatan. Á leiðinni fór br. Steindór yfir helstu atriði varðandi heimsókn okkar til sænsku Frímúrarareglunnar ásamt dagskrá næstu daga. Hann hafði heldur ekki nógu mörg lýsingarorð um hversu falleg og merkileg Stokkhólmsborg er.

Fyrri hluti nafnsins, Stokkhólmur, er m.a. talinn kominn af þeirri aðferð til forna að strengja (þ.e. loka) milli eyja með stokkum (trjábolum) sem hefur líkilega verið gert til að stjórna skipaferðum og geta þar með innheimt tolla. Var þá búin til skipavirki úr ydduðum trjábolum sem stóðu ógnandi upp úr, svonefnt pålspärr á sænsku. Hólmurinn í nafninu er líklega Stadsholmen, en á honum var meginhluti borgarinnar á fyrstu árhundruðum hennar.

Elstu ritaðar heimildir um Stokkhólm eru frá árinu 1252, en í þeim er staðurinn nefndur sem mikilvæg miðstöð í verslun með járn og járnmálma.

Sagt er að Birger Jarl hafi stofnað Stokkhólm til að vernda þáverandi aðalbæ svíaveldis, Sigtuna og svæðið kringum Leginn (sæ. Mälaren) frá innrásum og sjórræningjum. Undir stjórn Magnúsar Ladulås dafnaði bærinn og varð mikilvæg verslunamiðstöð í samvinnu við hansakaupmenn. Um 1270 er Stokkhólmur nefndur í heimildum sem borg og mikilvægasti bær Svía.

Stokkhólmur verður mikilvægur hlekkur í samskiptum hinna dönsku konunga Kalmarsambandsins og Svía á 15. öld. Steinn Sture tókst með dyggum stuðningi íbúa Stokkhólms að vinna mikinn sigur á Kristjáni I, Danakonungi, 14. október 1471. Sonarsonurinn, Kristján II hertók borgina 1518 og hélt henni fram til 1520. 8. nóvember 1520 stóðu hermenn Danakonungs að miklu blóðbaði á öllum helstu andstæðingum Dana, en það hefur verið nefnt Stokkhólmsvígin. Þetta blóðbað hafði þó algjörlega andstæð áhrif við það sem Danir höfðu búist við, víða bar til vopnaðra átaka og leiddi það til upplausnar Kalmarsambandsins.

Áhrif og vald Stokkhólms jókst þegar Gústaf Vasa varð konungur Svíþjóðar árið 1523. Um aldamótin 1600 var íbúafjöldi kominn upp í tíu þúsund. Á 17. öld varð Svíþjóð eitt af stórveldum Evrópu og það hafði mikil áhrif á þróun Stokkhólms. Miklar hallarbyggingar eru frá þessum tíma.

Svartidauði (1713–1714 og Norðurlandaófriðurinn mikli, (1721, höfðu í för með sér tímabundna stöðnun. Þó hélt Stokkhólmur áfram að vera mikilvæg menningarborg ekki síst undir stjórn Gústaf III sem meðal annars lét bygga fyrstu óperuna.

Á fyrri hluta 19. aldar dróst enn saman efnahagslegt vægi Stokkhólms. Norrköping varð aðal verksmiðjuborg Svíþjóðar og Gautaborg varð megin hafnarborg landsins. Á seinni hluta aldarinnar snérust leikar að nokkru og Stokkhólmur varð aftur mikilvæg iðnaðar- verslunar- og stjórnsýsluborg. Íbúafjöldi jókst gífurlega, í lok 19. aldar var ekki einu sinni 40 % af íbúunum fæddir í borginni.

Um kl 13:00 var svo komið heim á hótelið. Þá tók við frjáls tími þar til á sunnudag. Þennan tíma notaði fólk óspart í verslunar- og skoðunarferðir. Verður nú að segja eins og er að íslenska krónan mátti sín lítils í stórborginni og var að heyra á mönnum að kaupmáttur hennar hefði nú stundum verið meiri. Þó má segja að t.d. H&M hafi bætt geð margra systra en hafði víst ekki alveg sömu áhrif á hina annars léttu lund bræðranna.

Á sunnudeginum var svo stefnumót við Gunnar Benediktsson og teymdi hann okkur um borgina eins og leikskólabörn sem fóstran hefur í bandi. Hans hlutverk í þessum leik var að upplýsa okkur um borgina, sögustaði og það markverðasta sem borgin býður upp á. Gunnar er lektor við tækniháskólann í Stokkhólmi og hefur búið í Svíþjóð frá 1962. Hann er fjölfróður maður um sögu og menningu Stokkhólms.

Haldið var frá hótelinu við Wallingatan þaðan eru aðeins nokkur skref að Adolf Fredriks kirkjunni. Þar í garðinum er leiði Olof heitins Palme, sem var á sínum tíma forsætisráðherra Svíþjóðar, en hann var sem kunnugt er myrtur af ókunnum manni þann 28. febrúar 1986. Þaðan lá leiðin á Sveavägen og að staðnum þar sem Palme var myrtur. Þaðan var síðan haldið í átt að miðbænum og Gunnar upplýsti um margan magnaðan konunginn, einstaka drottingar, skáld og listamenn, guðsmenn og konur og fáeina veraldlega þenkjandi Stokkhólmsbúa. Meðal annars var farið um Gamla Stan á Kungsholmen, sem er hjarta borgarinnar, allavega að mati ferðamannsins.

Að lokinni gönguferðinni sem var svona í kaldara lagi þurftu bræður og systur drífa sig heim á hótel til að undirbúa kvöldið. Það sem stóð til var að fara á ekta sænskt jólahlaðborð í hinu fræga veitingahúsi Marten Trotzig sem staðsett er í Gamla Stan á Kungsholmen. Nafn staðarins er sótt til þýsks kaupmanns sem kom til Svíþjóðar um 1581 keypti fasteingir þar í götunni. Marten Trotzig gata er líka til. Hún fékk nafn þessa kaupmanns árið 1949 og þykir helst merkileg fyrir þá sök að þar sem hún er mjóst er hún einungis um 90 sentimetra breið.

Snæddur var dýrindis sænskur jólamatur á þessum víðfræga stað og drukkið með því jólaöl og auðvitað ákavíti. Sænskt jólahlaðborð er dálítið frábrugðið því íslenska að því leyti að byrjað er á fiskréttum, síld í öllum hugsanlegum myndum, laxi, einnig í nokkrum útgáfum og ýmsu góðgæti með þessu. Þegar menn hafa gert fiskréttunum góð skil er komið að köldum kjötréttum, síðan heitum kjötréttum og síðan er boðið upp á eftirrétti, einmitt rétt í þann mund sem maður hefur alls ekki list á þeim. Kvöldið tókst vel og fóru allir saddir og sælir heim á hótel eftir vel heppnað kvöld.

Um kl 14 á mánudegi var síðan haldið í Frímúrarahúsið í Stokkhólmi. Þar tóku á móti okkur bræður okkar í Den Nordiska Första S:t Johannislogen og fengum við aldeilis frábærar viðtökur ásamt ferð og leiðsögn um þeirra stórglæsilegu húsakynni.

Ordens stamhus

Árið 1874 keypti sænska Frímúrarareglan Bååtska Palace, eða Ordens Stamhus eins og það heitir nú. Höllin var byggð á árunum 1662 og 1669 og var hönnuð af Nikódemus Tessin arkitekt (1615-81). Sá sem reisti höllina var ríkisféhirðir Seved Bååth (1615-1669). Árið 1650 fékk hann landið að gjöf frá Kristínu drottningu, að því tilskildu að hann reisti byggingu í stíl við umhverfi sitt. Tessin teiknaði byggingu í hollensk-sænskum baroque stíl sem var dæmigert fyrir þó nokkur af húsum aðalsmanna í Stokkhólmi þess tíma.

Þegar sænska Reglan hafði keypt húsið hófst vinna við byggingu tveggja stórra álma sem vísuðu niður á móti Nybroviken. Vinna hófst í febrúar 1875 og 21. janúar árið 1877 var viðbyggingu lokið og (Stamhuset) eða hið nýja Frímúrarahús vígt. Arkitektinn að nýbyggingunni var Johan Erik Söderlund (1826-1875), en hann létst á byggingartímanum og við tók arkitektinn Emil Victor Langlet (1824-1898). Að utan var arkitektúr gömlu hallarinnar hafður að leiðarljósi og látinn halda sér.

Eftir að hafa þegið kampavín og kökur í riddarasalnum og hlustað á fyrirlestur var tekinn sprettur heim á hótel því að næst á dagskránni var að fara á fund hjá Den Nordiska Första S:t Johannislogen þá um kvöldið. Mættum við á tilsettum tíma og það fyrsta sem lá fyrir okkur þar var að borða smurt brauð og drekka öl með. Líkaði bræðrum það vel og strax ljóst að það var ýmislegt hægt að læra af Svíjum. Síðan hófst fundurinn. Þetta var upptökufundur á 1. gráðu. Ýmislegt var nú með öðru sniði en við eignum að venjast á fundunum fyrir norðan. Fundurinn var sérlega fallega og virðulega framkvæmdur og ekki fór á milli mála að þarna var hefðin löng. Den Nordiska Första S:t Johannislogen er reyndar elsta St. Jóh.st. á Norðurlöndum hún var stofnuð árið 1735 en fékk núverandi nafn árið 1799.

Upptakan fór fram með hefðbundnu sniði og síðan var bróðurmáltíð á eftir. Að loknu hefðbundnu borðhaldi fengu bræður aftur skoðunarferð um húsið, þ.e.a.s. þann hluta þess sem ekki var sýndur fyrr um daginn þegar systurnar voru með í för. Þetta kvöld var auðvitað hápunktur ferðarinnar og þurftu bræðurnir, sænskir og íslenskir, svo mikið að skoða og ræða saman að þeir gleymdu sér þangað til að næturvörðurinn varð minna á hvað leið tíma, annars má búast við að bræður hefðu verið að skoða húsakynnin og spjalla fram undir morgun.

Á meðan bræður sátu fund og borðhald hjá Den Nordiska Första sátu systur saman í hófi, sem haldið var í næstu byggingu við Frímúrarahúsið, sem reyndar er í eigu sænsku Reglunnar. Það er haft fyrir satt að þar hafi verið glatt á hjalla og systur skemmt sér hið besta í góðri samveru við góðan mat og drykk.

Á mánudagsmorgni var síðan haldið heim á leið. Flogið var frá Arlanda og vorum við lent í Keflavík um kl 16:00 þriðjudaginn 29. nóvember. Þar kvöddust menn með virktum, ánægðir með góða ferð og fullir tilhlökkunar að hittast aftur á næsta fundi. Í þessari ferð voru 29 bræður og 18 systur.

Dánarstaður Olaf Palme
2011:11:27 13:05:00
Dánarstaður Olaf Palme

Í miðborg Stokkhólms
2011:11:27 13:16:18
Í miðborg Stokkhólms

Við konungshöllina og þinghúsið
2011:11:27 14:00:32
Við konungshöllina og þinghúsið

Þrengsta gata í Evrópu
2011:11:27 14:59:42
Þrengsta gata í Evrópu

Mælifellsbræður
2011:11:28 23:23:57
Mælifellsbræður

Brl.kv.
Steindór Haraldsson Skagaströnd

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is