Tækifæri

Kristján S. Sigmundsson

Síminn hringdi hjá mér um haustið 1986 og erindið var, hvort ég hefði áhuga á að gerast stofnfélagi í nýrri St. Jóhannesar stúku sem til stæði að stofna í janúar 1987. Ég man ég svaraði strax „já“ það væri mér mikill heiður. Ég hafði verið í Reglunni í 5 ár, kominn á IV/V stig og var tilbúinn að takast á við nýja hluti.

En hverjir voru þessir nýju hlutir? Ég hafði heyrt hjá mér reyndari bræðrum, að það að taka þátt í stofnun nýrrar stúku væru ákveðin forréttindi sem sérhver bróðir ætti að nýta sér, ef honum byðist það. Með þessu símtali buðust mér því ákveðin forréttindi og mig langaði að nýta mér þetta tækifæri.

Mikil spenna ríkti fyrir stofnfund stúkunnar þann 25. Janúar 1987, og hlaut hún nafnið FJÖLNIR. Einvalalið aðalembættismanna stóð að stofnuninni og var ég svo heppinn að vera boðið að gerast aðstoðarmaður Siðameistara strax í byrjun.

Strax var ljóst að mikill metnaður var lagður í alla hluti, hvort heldur sem var embættisfærsla eða samheldni bræðrahópsins. Stofnendur voru 39 og eðli málsins samkvæmt var það eðlileg krafa að menn mættu á nánast alla fundi stúkunnar fyrstu árin.

Eitt af því sem mér er minnisstætt frá þessum fyrstu árum var hve mikill metnaður var hjá stjórnendum stúkunnar um að öll framkvæmd stúkufunda væri lýtalaus. Eins og svo oft er sagt „að eftir höfðinu dansa limirnir“. Þá tók enginn bróðir að sér embætti í FJÖLNI án þess að leggja allann sinn metnað í þau verkefni sem honum voru falin.

Menn æfðu sig ómælt og vildu sanna sig og sýna að þeir hefðu verið þess verðugir að hafa verið valdir í þennan hóp. Því er ekki að leyna að með því að taka þátt í stofnun stúku með aðeins 39 bræðrum verður samband og nánd bræðra miklu meiri en gerist í stærri stúkum. Þarna birtist bræðralagið í allri sinni mynd.

Það sem ég er ánægðastur með í starfi FJÖLNIS í gegnum tíðina í þessi nærri 27 ár er hversu metnaðurinn hefur ávallt verið til staðar og gaman að sjá hversu gildin sem stofnendurnir lögðu upp með í byrjun hafa haldið sér í aga og metnaði fyrir því að gera hlutina vel.

Kristján S. Sigmundsson
02.11.2014
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is