Móðurstúka
Gísli BenediktssonÞegar St. Jóh. stúkan Fjölnir var stofnuð fyrir 27 árum hafði ég verið meðlimur í frímúrarareglunni í 7 ár. Gekk í stúkuna Mími í janúar 1980 þá 33 ára gamall.
Stofnun stúku í lögsagnarumdæmum þar sem stúkur eru starfandi fyrir er með öðrum hætti en á svæðum þar sem Reglan er að hasla sér nýjan völl. Á þeim stöðum er fyrst stofnað bræðrafélag og síðan fræðslustúka, sem starfar í nokkur ár undir verndarvæng ákveðinnar móðurstúku annars staðar á landinu, þar til fullgild St. Jóh. stúka er formlega stofnuð. Þannig háttur var hafður á þegar Vaka á Egilstöðum var stofnuð fyrir 4 árum og Hlér í Vestmannaeyjum, sem var stofnuð 15. nóvember s.l.
Bræður sem starfa innan bræðrafélaga eða fræðslustúkna hafa hlotið upptöku og eru bræður í öðrum stúkum. Þegar fræðslustúka verður fullgild stúka flytjast bræðurnir á milli.
Á svæðum þar sem stúkur eru fyrir er framkvæmd á stofnun stúku með öðrum hætti. Þá er stúkan stofnuð beint með ákveðnum fjölda bræðra úr öðrum stúkum og hefur störf sín strax á stofndegi sem fullgild stúka. Í tilfelli Fjölnis komu flestir stofnendur frá Mími. Fyrsta Stm. stúkunnar, Vali Valssyni, var falið að annast stofnunina og valdi hann stofnendur hennar, 39 bræður, jafnmargir og hlekkirnir í keðjunni á skjaldarmerki stúkunnar.
Hvað mig varðar verður seint fullþakkað fyrir það tækifæri sem ég fékk að vera stofnandi stúku og eins það traust sem mér var sýnt að taka sæti sem einn af embættismönnum hinnar nýju stúku, sem ritari. Það verður að segjast eins og er að sá tími sem fór í hönd frá formlegri ákvörðun um stofnun fram að stofndegi var bæði annasamur og skemmtilegur, en ekki síst lærdómsríkur. Hugsa varð fyrir öllum hlutum stórum og smáum þannig að stúkan gæti hafið stúkustarf á stofndegi. Velja nafn, kenniorð, hanna stúkumerki, útvega einkenni, siðabækur, tryggja að öll áhöld væru til staðar o.s.frv. o.s.frv. Svo rann stofndagurinn upp og allt gekk að óskun.
Ef velja ætti eitt orð sem einkenndi undirbúningsstarfið þá held ég að það væri metnaður. Allir sem að komu, verðandi embættismenn og aðrir stofnendur undir styrkri stjórn Stólmeistarans voru staðráðnir í því að vinna gott verk sem allir gætu verið stoltir af. Í því sambandi má ekki gleyma þátttöku fjölda annarra bræðra sem leitað var til til margþættra verka. Fyrir okkur sem tókum þátt í undirbúningnum og stúkustarfinu á fyrstu árunum er einstaklega ánægjulegt að sjá að á árunum sem liðin eru síðan hefur aldrei verið gefið eftir í þeim efnum. Metnaðurinn, sem tendraður var í upphafi, lifir enn og við skulum sameinast um að það breytist ekki.
Við megum hins vegar ekki gleyma því, bræður mínir, að við erum allir meðlimir í einum félagsskap, Frímúrarareglunni. Einstakar stúkur eru einungis umgjörð um hið formlega stúkustarf en markmið okkar, sem við vinnum að, er mun dýpra og í raun óháð umgjörðinni. Með þetta í huga er mér ljúft að minnast þess að Mímir er og verður alltaf mín móðurstúka. Þar var tekið á móti mér þegar ég knúði dyra í upphafi og þar var ég leiddur fyrstu sporin. Fyrir það verð ég ávallt þakklátur.
20.11.2014