Þakklátur, glaður og stoltur

Grétar H. Óskarsson

Stúkan okkar Fjölnir var stofnuð 27. janúar 1987. Þáverandi SMR, Gunnar J. Möller, hafði falið br. Vali Valssyni að stofna nýja St. Jóh. stúku sem yrði sú fimmta í Reykjavík. Það voru liðin 12 ár frá stofnun síðustu St. Jóh. stúku í höfuðborginni og þörf var fleiri stúkna þar sem fjölgun félaga í Reglunni var mikil og aðsókn fór vaxandi. Br. Valur Valsson brást ekki því trausti sem honum var sýnt með útnefningu hans til þessa verkefnis og mikið starf var framundan. Leiddi hann það starf skipulega og með þeirri staðfestu sem nauðsynleg var.

Undirbúningur stofnunar stúkunnar var umfangsmikill og eitt af mikilvægustu verkefnunum var val stofnfélaga og þá sérstaklega verðandi embættismanna, sem einkum komu að undirbúningsstarfinu. Ég varð þakklátur, glaður og stoltur þegar br. Valur bauð mér að gerast stofnfélagi og taldi ég það bæði mikinn heiður og áskorun til mín sjálfs að bæta sjálfan mig og verða betri reglubróðir.

Upptaka mín í Regluna fór fram í stúkunni Mími í október 1969 og hafði ég þegar hér var komið sögu hlotið IX° og var embættismaður Stórstúkunnar en jafnfram ritari Stúkuráðs. Var því ekki um það að ræða að ég yrði embættismaður í Fjölni, en starf mitt fyrir Stúkuráð gaf mér þó tækifæri að leggja nokkuð af mörkum til undirbúnings stofnunar stúkunnar okkar.

Á þessum tíma var almenn tölvunotkun í landinu rétt að ganga í garð og Stjórnstofa Reglunnar hafði ekki enn verið tölvuvædd sem slík. Stúkuráð hafði því ekki enn fengið tölvur til að útbúa og endurnýja ritúöl fyrir hinar ýmsu stúkur og öll ritúöl voru vélrituð með gamla laginu. Nú var komið að því að nýja stúkan okkar Fjölnir þyrfti ritúöl, öll ritúöl I°, II° og III°, en þau voru ekki til nema sem ljósrit og vélrituð afrit eldri ritúala annarra stúkna. Það var mitt hlutverk sem Ritara Stúkuráðs að útbúa þessi ritúöl fyrir Fjölni.

Flugmálastjórn hafði tekið í notkun tölvur á skrifstofum sínum nokkru áður og þar á meðal hafði ég fengið einkatölvu með ritvinnslukerfinu Word. Lá því beint við fyrir mig sem Ritara Stúkuráðs að endurrita þau ritúöl Reglunnar sem til þurfti í ritvinnslukerfi tölvunnar og þar með hafði Stúkuráð fengið fyrstu ritúöl Jóhannesarstiganna komin í stafrænt form.

Fjölnir var því fyrsta stúkan sem fékk nýútgefin, endurskoðuð og endurrituð ritúöl þegar hún tók til starfa. Þau voru framlag mitt við undirbúning að stofnun Fjölnis fyrir nær því 28 árum síðan. Síðar fengu einnig aðrar stúkur endurnýjuð og bætt ritúöl í stafrænu formi, fyrst Jóhannesarstigin en síðar Andrésarstigin og loks Stórstúkan, sem nú heitir Landsstúka Frímúrarareglunnar á Íslandi.

Við stofnfélagar Fjölnis litum svo á það sem okkar sérstöku ljúfu skyldu að mæta sérlega vel og reglulega á stúkufundum og taka þátt í stúkustarfinu af heilum hug. Hvað mig varðar gegndi ég þeirri skyldu eins samviskusamlega og mér var unnt, þar til ég var árið 1995 kallaður til starfa í hinum „ytra heimi“, í fyllstu merkingu þeirra orða, því að ég fór til starfa í Namibíu og var flugmálastjóri í því góða landi næstu 5 árin. Þar á eftir lá leiðin til Kanada og síðan til Kosovo, Bútan og Serbíu.

Árin erlendis urðu alls tólf en Fjölnir hélt áfram að vaxa og dafna þótt mín nyti ekki lengur við! Nú hef ég aftur á móti tækifærið til þess að taka upp þráðinn á ný, endurnýja kynnin við stúkubræður og rækja stúkustarfið af kostgæfni. Megi svo verða.

Grétar H. Óskarsson
28.12.2014
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is