Frímúrarareglan í Japan

Frímúrarareglan í Japan

Það var fyrir einu og hálfu ári að ég flutti aftur til Tokyo, þar sem ég hafði þegar búið í hartnær 18 ár. Eitt fyrsta verk mitt var að setja mig í samband við Frímúrararegluna í Japan, The Grand Lodge of Japan, og fá kynningu á starfsemi bræðra okkar þar í landi. Nokkrum mánuðum síðar og að fengnum tilskyldum leyfum frá Reglunum á Íslandi og í Japan fyrir tvöfaldri aðild, var ég tekinn upp á Meistaragráðu Jóhannesar stúkunnar, De Molay Land Lodge No 22 í Tokyo.

Talið er að fyrsti frímúrarinn, er sótti Japan heim, hafi verið hollenzki kaupsýzlumaðurinn Isaac Titsingh, en hann mun hafa komið fyrst til Japans 1779 og dvalið í Nagasaki, en á þeim tíma var einungis Hollendingum og Kínverjum, sem ekki voru kristinnar trúar, leyfð viðvera í Japan til þess að stunda viðskipti. Ekki fara neinar sögur af frímúara starfsemi hans, en hins vegar reit hann nokkrar bækur um Japan.

Japan var öldum saman lokað land, og með undantekningu af viðskiptum Hollendinga og Kínverja í Nagasaki, var engum útlendingum hleypt inn í landið. Það var ekki fyrr en 1863 að japönsk yfirvöld gáfu eftir og leyfðu Bretum og Frökkum að hafa bækistöðvar í Yokohama. Það var á þessum árum, eða nánar tiltekið 1864, að fyrsta stúkan var stofnuð í Japan, Sphinx Lodge No. 263. Starfsemi hennar var þó ekki löng, eða einvörðungu tvö ár. Sama ár var þó stofnuð önnur stúka, Yokohama Lodge No. 1092. Í framhaldinu voru stofnaðar fleiri stúkur, er fengu leyfi til starfa en þó með því skilyrði japanskra stjórnvalda að bræður væru allir erlendir og að sem minnst færi fyrir starfsemi stúkna. Nokkrir þjóðfrægir Japanir höfðu þó og áttu eftir að hljóta upptöku í reglur víða um heim á þessum árum.

Það fór að halla undan fæti fyrir frímúrarareglunni í Japan þegar leið á seinni hluta fjórða áratugar síðustu aldar. Hin herskáu stjórnvöld þess tíma voru tortryggin í garð frímúrara og svo fór að í byrjun fimmta áratugar var öllum stúkum í Japan lokað. Að stríðinu loknu, hófst starfsemi frímúrara að nýju. Bræður í frímúarareglunni á Filippseyjum komu á fót fjórum stúkum og á tímabilinu frá 1947 til 1956 voru alls 16 stúkur stofnaðar. Douglas McArthur, hershöfðingi og yfirmaður herafla bandamanna í Asíu, reyndar einnig frímúrari, var ötull stuðningsmaður reglunnar. Reglan var loks opnuð fyrir Japönum, og hlutu á næstu árum bæði frægir þingmenn sem og nokkrir meðlimir keisara fjölskyldunnar upptöku í regluna. Reglunni óx fiskur um hrygg og árið 1972 náði hún metfjölda bræðra, alls 4.786, en eftir það fór þó bræðrum að fækka og þá sérstaklega eftir Fukushima slysið 2011, þegar margir erlendir bræður yfirgáfu Japan. Í dag er fjöldi bræðra í Reglunni í Japan um rétt um 3.000 alls.

Flest allar stúkur í Japan starfa undir Frímúrarareglu Japans, The Grand Lodge of Japan, en nokkrar starfa þó undir Frímúrarareglum í Bandaríkjunum, Filippseyjum og í Bretlandi.

Regluheimilið í Tokyo er staðsett í hjarta borgarinnar, rétt við hlið Tokyo Tower. Landið, sem heimilið stendur á, var eitt sinn eign ríkrar aðalsfjölskyldu frá eyjunni Shikoku, en á tímum Sjógunanna var japönskum landsaðli gert skylt að eiga einnig aðsetur í Tokyo. Var það gert til þess að sjóguninn gæti haft betri tök á landaðlinum, sem stjórnaði í sínum heima héraði í hans nafni. Þegar landaðallinn var leystur upp, keypti Klúbbur Flotaforingja Hinnar Keisaralegu Hátignar landið af þessari aðalsfjölskyldu og reisti á því steinsteypta byggingu. Bygging þessi stóð af sér flugárásir Bandaríkjamanna. Eftir stríðslok var hún notuð sem afþreyingarbústaður fyrir hermenn herafla bandamanna unz japanska stjórnin ákvað að setja landið í sölu. Þá tóku sig saman nokkrar stúkur og söfnuðu fé til kaupanna, og að því að sagan segir, með dyggum stuðningi hershöfðingjans sjálfs, McArthurs. Í mörg ár eftir kaupin fór öll starfsemi reglunnar fram í byggingunni, en þar sem hún var bæði til ára sinna komin og henti illa til starfseminnar, var hún loks rifin og nýtt glæsilegt hús byggt. Hin nýja bygging, sem að vísu ber lítið yfir sér að utan séð, leynir hins vegar á sér, því þegar inn er komið, má sjá að hún er mjög vegleg neðanjarðar.

Þegar ég mætti fyrst í regluheimilið, tók á móti mér aldraður bróðir frá Bandaríkjunum, sem hafði eins og margir hermenn, ílengzt í Japan. Það var með stolti að hann sýndi mér herbergi eitt, herbergi sem var nákvæmlega eins innréttað og með sömu húsgögnum og það hafði verið í gömlu byggingunni, frá þeim tíma þegar það var Klúbbur Flotaforingja Hinnar Keisaralegu Hátignar: voldugir leðurklæddir eikarstólar umkringja stórt eikarborð, glerskápar allt í kring með mynd af Hirohito Keisara. „Í þessu herbergi, bróðir minn“, sagði hann við mig ábúðarfullur, „var ákvörðunin um árásina á Pearl Harbour tekin!“.

Starfsemi okkar bræðra í Japan er, eins og marga gætu grunað, töluvert frábrugðin þeirri sem við eigum að venjast á Íslandi. Reglan gerir ekki kröfu um að bræður séu kristinnar trúar, heldur einungis að þeir játi trú á æðri mátt. Jóhannesarstúkurnar eru kallaðar á ensku, sem er í reynd annað tungumál reglunnar vegna fjölda erlendra bræðra, „Blue Lodges“. Þegar bróðir hefur hlotið meistarastig, velur hann um að ganga annað hvort í Skozku Reglunna, Scottish Rite, eða Jórvízku Regluna, York Rite. Margir bræðir láta þó staðar numið og eru alla tíð einungis í „Blue Lodges“.

Stúkan mín er kennd við síðasta Stórmeistara Musterisriddarana, Jacques de Molay, er var brenndur á báli 18. Marz 1314. Stúkan er tvítyngd, það er að segja, bræður velja sjálfir hvort þeir tali ensku eða japönsku, en stærri hluti bræðra eru þó Japanir, sem þýðir að yfirleitt er japanska ríkjandi á fundum. Stúkufundir eru haldnir einu sinni í mánuði, á laugardögum, og hefjast þeir yfirleitt klukkan tvö eða þrjú eftir hádegi, eftir því hvað er á dagskrá. Algengt er að fundir hefjist á III. gráðu, færðir síðan niður í II., og síðan í lokinn niður á I. gráðu. Það gefur því augaleið að fundirnir geta verið langir og lýkur þeim oft ekki fyrr en rétt fyrir sjö. Bróður máltíðar eru ekki haldnar eftir fundina í regluheimilinu sjálfu, en þess í stað förum við bræður út á krár eða matsölustaði til að fá okkur mat og drykk. Umsækjendur í Reglunni bíða eftir að fundum ljúki og slást í för með okkur. Þannig gefst bæði okkur bræðrunum tækifæri að kynnast þeim sem og þeim að fræðast um starfsemi okkar og tilgang reglunnar. Oftar en ekki bíða umsækjendur í eitt ár eftir að tekið er við umsókn þeirra, ef mönnum þykir fýsilegt að sækja um, en þá hefst hið vanalega umsóknarferli. Fyrir utan starfsemi í regluheimilinu sjálfu, hittazt bræður mánaðarlega utan þess til dæmis í þeim tilgangi hnoða hrísgrjónabolta (jap. „o-nigiri“) fyrir heimilislausa sem og fyrir aðra hjálparstarfsemi.

Þótt vissulega margt sé ólíkt með bræðrum okkar í Japan og Íslandi, þá er reglan af sama meiði og sú íslenzka. Böndin, sem okkur tengja, ná um veröld alla og það finnur hver bróðir, sem til okkar kemur.

Eyþór Eyjólfsson, 1. Febrúar 2015

MYNDIR:

Frímúrarareglan í Japan

Merki stúkunnar De Molay – Land Lodge No. 22, Free & Accepted Masons of Japan

Hér erum við á ítölskum stað

Eftir fundi förum við á veitingastaði eða krár í nágrenninu. Hér erum við á ítölskum stað með tveimur bræðrum frá Austurríki, sem komu í heimsókn.

Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is