Að feta í sömu fótspor

Lárus Johnsen Atlason

Það mun hafa verið snemma árið 1976 sem ég bað föður minn um liðsinni við að ganga í raðir Frímúrara. Hann tók málaleitan minni vel og eftir að við höfðum rætt þessa ósk mína okkar í milli sá hann alfarið um umsóknina, svo mjög að ég vissi ekki hver hinn meðmælandi minn var. Það var hins vegar þegar farið var að líða á árið 1977 að ég ynnti föður minn eftir gangi mála, en hann var þá starfandi skipstjóri í millilandasiglingum og því fremur sjaldan heimavið. Þegar hann náði tali af þeim sem hafði með umsóknina að gera kom það í ljós að hinn meðmælandi minn hafði látist og því hafði umsóknin verði sett á ‚ís‘ allt þar til hann innti eftir gangi mála. Eftir þetta fékk hann annan aðila til að vera mótmeðmælanda og umsóknin fór aftur í ferli. Það var svo í byrjun árs 1978 sem ég fékk boð um að komið væri að inntöku minni í stúkuna Mími. Inntökufundurinn átti að vera að mig minnir mánudaginn 18. janúar, en þegar við vinnufélagarnir Önundur Jóhannsson og ég fengum boðunina, þá vorum við báðir við vinnu í Nairobi í Kenya þar sem við vorum búsettir vegna starfa okkar fyrir Kenyan Airways en við vorum áhafnarmeðlimir hjá Arnarflugi, sem þá var og hét. Það skal tekið fram að hvorugir vissum af umsókn hins í Regluna. Í þá daga var ekki svo auðvelt að fljúga á milli heimsálfa og nú og þegar við loks komumst til Íslands var komið mánudagskvöld og það 18. janúar og því fór sem fór, við komum of seint og misstum af upptökufundinum. Fyrir einstakan góðvilja og bróðurhug var settur upp aukafundur laugardaginn 23. janúar og við félagarnir vorum báðir teknir í raðir frímúrara þann dag. Síðan lá leiðin aftur til Kenya og ég kom ekki heim fyrr en eftir páskana það árið til að endurnýja áhafnarskírteini mitt. Mig minnir að ég hafi komist á einn fund í það skiptið áður en ég fór aftur úr landi. Þannig var það í þá daga og mér er það ennþá ofarlega í huga hversu erfitt var að koma sér á fund eftir langa fjarveru. Ég á því mjög auðvelt að setja mig í spor þeirra bræðra sem finnst það býsna erfitt að koma á fund eftir fjarveru, þá fyrst reynir á bróðurhug og þess vegna er það að mínu viti afar mikilvægt að taka vel og hlýlega á móti bræðrum sem ekki hafa sést lengi, það getur einfaldlega ráðið því hvort viðkomandi bróðir sækir fundi eða verður hreinlega fráhverfur starfinu. Það er því stórlega undir okkur öllum komið hvernig bræður skynja móttökurnar. Ég veit þess reyndar dæmi að stúkubróðir hefur fengið þá tilfinningu að hann og maki hans væru ekki velkomnir og það endaði heldur dapurlega fyrir okkur bræður mínir. Við misstum prýðis félaga úr okkar röðum. Mætingar mínar á stúkufundi fyrstu árin voru oft á tíðum heldur stopular á köflum, en það var vegna þess að ég var farmaður í flugrekstri og því oft starfandi erlendis í lengri eða skemmri tíma. Þessar verur mínar á erlendri grundu urðu þó til þess að mér tókst t.d. að komast á frímúrarafund í Guatemala og á tímabili var ég búsettur í Jórdaníu þar sem ég fór á allnokkra fundi sem var mjög fróðlegt fyrir mig, m.a. var á einum fundi teknir upp þrír ókunnir leitendur, tveir múslimar og einn var kristinn. Á þessum tíma var verndari Frímúrarareglunnar í Jórdaníu Hussein Jórdaníukonungur, sem ég var svo heppinn að hitta og kynnast lítillega, en hann var m.a. mikill áhugamaður um flug og sýndi mér og öðrum konunglegan listflugsflota sinn.

Þegar svo Valur Valsson var af þáverandi SMR fenginn til þess að stofna nýja stúku var mér og nokkrum fjölda Mímisbræðra boðið að gerast stofnfélagar í Fjölni, stúkunni okkar. Í minni minningu var okkur stofnfélögum uppálagt að mæta á alla fundi fyrstu 5 árin ef við á annað borð værum uppi standandi og á landinu. Þegar svo stúkan var stofnuð þann 25. Janúar 1987 var það gríðarlega stór dagur fyrir okkur alla, en hiti og þungi að öllum undirbúningi hvíldi að sjálfsögðu að mestu á herðum Vals og annarra aðal embættismanna. Á svipuðum tíma var ég starfandi sem Y. Stv. í St.And.St. Helgafelli. Í þá daga voru allt að 3 til 4 fundir í hverri viku, enda eina Andrésarstúkan í Reykjavík á þeim dögum en Hlín var ekki stofnuð fyrr en árið 1992 og 10 árum síðar Hekla. Vegna starfa minna í fluginu þurfti ég eðlilega oft að fá aðra embættismenn til að hlaupa í skarðið og taka mína fundi í fjarverum mínu. Þegar ég svo kom heim aftur ‚skuldaði‘ ég fyrri fund og átti e.t.v. sjálfur fund þá vikuna og svo bættist við skyldumæting í Fjölni. Á þessum tíma munaði bara hársbreidd á því að ég yfirgæfi starfið fyrir fullt og allt, enda þrýstingur í hámarki og mikil vinna í hinum ytra heimi auk allra þessara fund. Það er síðan þá sem ég hef myndað mér þá skoðun að of mikið starf getur verið býsna varhugavert fyrir bræður, sérstaklega yngri bræður sem fyrir utan eðlilegt vinnuálag eiga oft á tíðum krefjandi fjölskyldur sem þeim ber skylda að sinna. Þessu megum við eldri bræður aldrei gleyma.

Ég þakka hins vegar H.H.H.H.o.J. fyrir það að hafa gefið mér æðruleysi þegar ég þurfti á því að halda og því er ég einn af þeim fjölmörgu mjög svo heppnu bræðra sem fengið hafa að vaxa og þroskast með starfinu í Reglunni og í mínu tilfelli í stúkunni okkar Fjölni og reyndar víða annar staðar innan veggja Reglunnar. Ég er sjálfur þriðji ættliður í Reglunni en afi minn Helgi Jónasson frá Brennu gekk í Eddu 6. febrúar árið 1923. Ég vissi hins vegar ekki af því að hann hefði gengið í raðir Frímúrara fyrr en ég hafði verið einhver ár í Reglunni. Faðir minn Atli Helgason skipstjóri gekk hins vegar í Mími 10. apríl 1961 og ég fylgdist oft með honum á mínum yngri árum þar sem hann undirbjó sig til funda í Mími og í minningunni voru þetta ávallt hátíðarstundir. Vafalítið hefur það haft mikil áhrif á mig og ákvörðun mína um að feta í sömu fótspor og hann þegar ég hafði náð aldri til að sækja um inngöngu í Regluna. Ég svo lánsamur maður að eiga fimm syni sem hafa nú allir gengið til liðs við Regluna. Ég get ekki annað en vonað og trúað að eitthvað af því sem ég hef lært og tileinkað mér úr frímúrarastarfinu hafi verið þess valdandi að þeir ákváðu að feta í sömu fótspor. Hvað um það þá er það „Klingende Klart“ að það mannræktarstarf sem við tileinkum okkur undir handleiðslu Reglunnar er eitt af því besta sem fyrir mig hefur komið á lífsleiðinni ef frá er talin konan mín, því eins og John F. Kennedy mælti forðum, getum við umorðað eina af frægum setningum hans og sagt: „Spyrjum ekki hvað Reglan getur gert fyrir okkur heldur hvað við getum gert fyrir Regluna!“

Lárus Johnsen Atlason
03.02.2015
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is