Einföld og skemmtileg hönnun undir lögreglueftirliti

Ólafur Stephensen

Stundum er sem óviðráðanleg verkefni sæki að manni. Ekki nóg með það. Þessi ágætu verkefni eru oft á tíðum svo skemmtilega einföld að það er ekki nokkur vandi að vinna þau. Þetta finnst manni – þangað til að allt fer í strand. Alls konar vandamál verður að leysa,- vandamál, sem enginn hafði gert sér grein fyrir í upphafi. Og verkefnið, þetta “einfalda og skemmtilega” breytist skyndilega í vandamál, sem kemur manni til að spyrja sjálfan sig: “Hvað í ósköpunum ertu búinn að koma þér í núna, drengur – enn einu sinni ?”

Vandamál mitt átti sér nokkuð langan aðdraganda. Árið l985 var br. Vali Valssyni falið að undirbúa stofnun nýrrar stúku. Br. Valur valdi nokkra brr. sér til aðstoðar. Þeir hittust reglulega í skrifstofu br. Vals í húsakynnum Íslandsbanka við Lækjargötu. Þar ræddu brr. hin ýmsu verkefni, sem lágu fyrir, og skiptu með sér verkum. Þetta var samhentur hópur sem tók að sér “einföld og skemmtileg” verkefni.

Stúkan, sem var stofnuð árið 1987, hlaut nafnið Fjölnir. Hún var fimmta St. Jóhannesarstúkan í Reykjavík. Það var í mörg horn að líta í sambandi við undirbúninginn. En undirbúningurinn var ekki síst hjá ÆR Reglunnar, sem lagði línurnar fyrir framkvæmdahópinn. Stúkan Fjölnir átti að byggja á kærleika. Einkunnarorðið CARITATE er latína, sem merkir “í kærleika,” átti að undirstrika bróðurkærleikann “sem skal vera undirstaða stúkustarfsins.”

Verkefnið, sem mér var falið, var hönnun og frágangur skjaldarmerkis Fjölnis. Merkið átti að sýna gyllta keðju á bláum fleti en innan hennar hvítan jafnhliða þríhyrning utan um logandi ljós, sem táknar ORÐIÐ. Hlekkir keðjunnar áttu að vera 39 talsins, eða jafnmargir og stofnfélagarnir. Þá átti heiti stúkunnar, kjörorð og aðsetur að vera neðst á skildinum.

Þetta leit út fyrir að geta orðið bæði “einfalt og skemmtilegt” verkefni. Það var það líka – þar til okkur var bent kurteislega á að teiknarinn, sem ég hafði valið til verksins, væri ekki frímúrari. Það væri alveg ótækt að þetta væri unnið af einhverjum sem ekki hefði einhverja þekkingu á stúkustarfi Reglunnar.

Upphófst nú leit að br. hönnuði sem þekkti til stúkustarfsins. Leitin var hvorki einföld né skemmtileg. Hún endaði með ungum vestur-íslenskum teiknara, Dean Magnússon. Dean var í sumarvinnu hjá auglýsingastofunni minni. Hann þekkti töluvert til stúkustarfsins, pabbi hans heitinn hafði nefnilega verið frímúrari í Kanada. Dean var einstæðingur, búinn að missa báða foreldra sína, en átti eina frænku á lífi. Frænkan kom honum í sumarvinnu hjá okkur.

Stúkumerki Fjölnis

Dean Magnússon var góður teiknari, útskrifaður hönnuður frá bandarískum háskóla. Hann var ákaflega samviskusamur og nákvæmur í starfi sínu. Hann vann teiknivinnu skjaldarmerkis okkar mestmegnis á nóttunni, svo að enginn kæmist að því hvaða verkefni hann væri að sinna. Hann strandaði samt á einu atriði sem okkur fannst vera mikilvægt.

Það var leturgerðin á skjaldarmerkinu, t.d. í nafni stúkunnar. Þegar við vorum að vandræðast með val á letri fengum við óvænta aðstoð og góða hjálp. Einn af bræðrunum í framkvæmdahópnum vissi allt um leturgerðir og meira til. Það var okkar ágæti bróðir Haukur Bjarnason, lögreglumaður. Má því sannarlega segja að útlit skjaldarmerkis okkar hafi verið klárað undir lögreglueftirliti !

Bæði Dean og br. Haukur eru nú látnir. Blessuð sé minnig þeirra.

Ólafur Stephensen
20.02.2015
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is