Í kærleika og bróðurhug

Skúli Jón Sigurðarson

Ég þekkti Andrés Andrésson klæðskera mjög vel, en hann var bróðir stjúpa míns og ég leigði hjá honum í Suðurgötu 24 eftir1958, meðan ég var í Háskólanum og starfaði sem kennari. Andrés var trúaður, vandaður og góður maður og hafði mikla dulræna hæfileika. Ég vissi að hann var frímúrari og að hann fór reglulega á fundi þar. Ég fékk áhuga á Reglunni og fór að reyna að lesa mér til um eðli og tilgang hennar. Reyndi að fræðast af Andrési og sannfærðist um að þarna væri mannbætandi félagsskapur reistur á kristilegum grunni. Ekkert varð þó frekar af þessu um sinn, enda sat brauðstrit ungs fjölskylduföður fyrir öllu öðru.

Nokkrum árum eftir að ég fór að vinna hjá Flugmálastjórninni 1965, komst ég fljótt að því, að nokkrir ágætis menn sem ég þekkti þar og í flugheiminum væru í Reglunni. Ég vakti máls á áhuga mínum við heiðursmanninn Hauk heitinn Claessen varaflugmálastjóra. Hann tók erindi mínu vel og þar kom, eftir að ég hafði rætt þetta frekar við hann, að ég ákvað haustið 1970 að sækja um inngöngu í stúkuna Mími, en ég vissi að þar voru nokkrir vinnufélagar mínir. Þeir Haukur og Guðjón heitinn Tómasson, báðir Eddubræður, voru meðmælendur mínir.

Ég var af tilviljun staddur inni hjá Guðjóni Tómassyni fyrir jólin 1970, þegar Haukur Claessen kom þar. Hann lokaði dyrunum og sagði Guðjóni, að ég yrði tekinn inn í Mími laugardaginn 6. janúar. Ég sá að andlitið á Guðjóni seig af undrun og hann sagði: “Það getur ekki verið, það er ómögulegt”!! – síðan urðu þeir báðir leyndardómsfullir á svip og sögðust þurfa að tala saman tveir. Mér varð eiginlega ekki um sel og ekki bætti úr, að þegar ég nefndi þennan dag við vinnufélagana sem ég vissi að voru voru í Mími, þá voru viðbrögð þeirra lík þessu.

Hvað um það, laugardagurinn 6. janúar 1971 rann upp og á tilsettum tíma sóttu þeir félagar Haukur og Guðjón mig og ekið var niður í Borgartún, að innganginum í “gamla húsið”, en “nýja húsið” var þá enn ekki fullgert og ekki komið í notkun. Við sátum dágóða stund í bílnum, en hópar manna voru að koma að húsinu. Ég sá að þar komu m.a. Ásgeir Ásgeirsson forseti Íslands og sr. Jón Auðuns dómprófastur. Einnig sá ég þarna m.a. sr. Svein Víking sem ég þekkti fyrir, Freystein Gunnarsson, gamla skólastjóra konunnar minnar úr Kennaraskólanum og einnig vin minn Jón Arndal heitinn Stefánsson. Þarna voru engir smákarlar á ferð og spennan í maganum hvarf – svona að mestu.

Upptökufundurinn fór vel og skörulega fram, enda stýrði Vilhjálmur Þór honum. Ég komst að því eftir á, að Landsstúkan eða Stórstúkan eins og hún hét þá, hafði þarna ákveðið að taka upp bróður á I-stig þetta kvöld, sem var Regluhátiðin og einnig vígja III-stigs salinn þetta sama kvöld. Ég varð óverðugur þess ótrúlega heiðurs aðnjótandi að verða fyrir valinu á I-stigið í Mími og númer mitt þar varð 234. Gunnar Thoroddsen heitinn var tekinn á III-stig þetta sama kvöld, þegar III-stigs salurinn var vígður, en það vissi ég auðvitað ekki fyrr en eftir á. Salurinn var fyrsti hluti nýja hússins sem tekinn var í notkun.

Þá er ofarlega í huganum frá fyrstu árunum í Mími, alúðin, umhyggjan og hlýtt viðmót sem br. Gunnar Möller Stm. Mímis sýndi okkur yngstu bræðrunum, ekki veitti af.

Nánast strax eftir að ég tók IV/V stig í janúar 1974, var ég gripinn til starfa í St. Andrésarstúkunni Helgafelli. Þar ríkti afar góður andi og einlægur bróðurkærleikur og þar eignaðist ég marga góða vini, samstarfið var náið og skemmtilegt. Helgafell var þá eina St. Andrésar stúkan hér syðra og eðlilega var þar mikið að gera. Fundir voru tíðir, tveir eða þrír í viku hverri og oft mjög langir laugardagsfundir. Einhvern veginn varð það svo af þessum ástæðum, að ég fór að vanrækja fundarsóknina í Mími og þekkti því fáa og síst yngri bræður, þá sjaldan ég kom þar á fundi.

Svo var það að ég heyrði um áformin um stofnun nýrrar stúku og sá þar tækifæri til þess að byrja upp á nýtt og halda þá fast í þráðinn í framhaldinu. Ég hafði gegnt ýmsum embættum í Helgafelli í 11 ár, lengst af sem Y.Stv. Ég tilkynnti því br. Werner Rasmussyni Stm. Helgafells, að ég vildi hætta sem embættismaður og snúa mér betur að því sem frá var horfið í St. Jóhannesarstúkunni fyrir12-13 árum. Hann tók þessu með semingi en féllst þó á ósk mína.

Br. Vali Valssyni, stúkubróður mínum í Mími hafði verið falið að undirbúa stofnun nýju stúkunnar. Meðal stofnenda og stofnfélaga voru margir Mímisbræður og Valur tók ljúflega beiðni minni um að fá að vera meðal stofnfélaga hinnar nýju stúku. Stúkan Fjölnir var stofnuð 25. janúar 1987, stofnendur og stofnfélagar voru 39 samtals og númer mitt varð 12. Einstakur vináttuandi og samheldni einkenndi strax starfsemina. Kjörorð stúkunnar varð “Caritate” eða “Í kærleika” og í þá átt var stefnan sett.

Þessi ákvörðun mín að sækjast eftir því að ganga í Fjölni, varð mér mikið gæfuspor og ennþá er tilfinningin um einlæga vináttu, kærleika, samviskusemi og bróðurhug jafnsterk í huga og samskiptum þegar bræðurnir koma saman og í upphafi var, enda er “Caritate” aðalsmerki Fjölnisbræðra og það má ekki síst þakka stefnunni sem br. Valur Valsson setti stúkunni í upphafi.

Menn segja ekki NEI! þegar Reglan er annars vegar og fljótt var ég enn gripinn til ýmissa starfa, en reyndi þó eftir megni að sækja vel fundi í Fjölni, minnugur þess sem áður skeði. Var m.a. um margra ára skeið Ritari Stúkuráðs undir stjórn br. Einars Birnis og í 11 ár var ég F.SMR. Loks var ég A.Skv. í 3 ár. Á þessum starfsvelli kynntist ég enn betur eldri mönnunum, sem höfðu um langt skeið borið hitann og þungann í starfi og stjórnun Reglunnar. Þau kynni og samskipti voru fjársjóður sem er og verður vel geymdur.

Svo var það að ég var beðinn um að verða einn af stofnendum St. Jóh. St. Iðunnar og ég var R. hennar frá stofndegi 2010 til vors 2013 er ég náði hámarksaldri embættismanna. Þátttakan í undirbúningi og stofnun Iðunnar, undir stjórn br. Jóhannesar Harry Einarssonar, sem sannarlega að verðleikum var valin til þess að stofna og stjórna stúkunni Iðunni fyrstu sporin, var afar gefandi og góður endir á starfsferlinum í þágu Reglunnar, ef svo má að orði komast.

Fjölnir er og verður stúkan mín og vinnan við stofnun Iðunnar rifjaði upp Fjölnisandann og minnti mig enn betur á, að þó svo við kynnumst starfi einnar stúku betur en annarar, þá erum við í raun allir eitt og stefnum að sama marki, að gera góðan mann betri.

Skúli Jón Sigurðarson
20.02.2015
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is