Gott ráð

Þorsteinn Sv. Stefánsson

Ég gekk í Frímúrararegluna 5. des. 1983, í St. Jóh. stúkuna Mími. Nokkuð langur aðdragandi var að þessu, en ég var þá nýlega fluttur til Íslands eftir 12 ára dvöl í Gautaborg í Svíþjóð. Þar hafði ég og fjölskyldan kynnst golfíþróttinni og líkað vel. Þess vegna gengum við fljótlega í Golfklúbb Reykjavíkur, og þar kynntist ég Guðmundi S. Guðmundssyni, sem var þá framkvæmdastjóri klúbbsins.

Ég hafði áður kynnst mönnum, sem voru í Reglunni, en upplýsingar um hana lágu ekki á lausu hjá neinum þeirra. Ég fékk þó að vita að umsækjendur þyrftu að hafa tvo meðmælendur og bað ég því Guðmund að vera annan þeirra. Þá var að finna hinn, en ég þekkti engan nema séra Pétur heitinn Sigurgeirsson, biskup, sem ég hafði kynnst þegar ég var í MA á Akureyri. Eftir nokkra umhugsun pantaði ég tíma hjá biskupnum. Hann tók mér mjög vel og samþykkti að vera meðmælandi minn. Þessir menn reyndust mér báðir afar vel.

Á inngöngufundinum varð mér ljóst að ég þekkti fleiri reglubræður en ég hafði haldið, því að Indriði Pálsson, þá HSM stjórnaði fundinum og Ásgrímur, bróðir hans og uppeldisbróðir minn, svo og Jón Arndal Stefánsson voru einnig á fundinum, en ég og þessir þrír menn erum systkinasynir.

Í Mími varð ég fljótlega vörður og árið eftir bauð Jón Þ. Gíslason, sem þá var næstur á eftir bræðrunum Sverri og Ragnari Jónssonum í siðameistarahópi Mímis, mér að koma í hópinn og taka þátt í því starfi, sem siðameistarar inna af hendi. Það var góður og samheldinn hópur og lærði ég mjög margt af þessum ágætu mönnum, sem síðar hefur komið mér að góðu gagni.

Þegar Guðni Jónsson spurði mig hvort ég vildi vera með í að stofna nýja St. Jóh. stúku, hikaði ég í fyrstu og bað um umhugsunarfrest, enda var ég þá aðeins búinn að vera rúm þrjú ár í Reglunni. Ég ræddi svo málið við annan meðmælanda minn, Guðmund S. Guðmundsson, sem hvatti mig eindregið til að grípa þetta tækifæri, því að slík væru ekki á hverju strái. Fór ég síðan að hans ráði og hef aldrei séð eftir því, enda áttaði ég mig fljótlega á því að það væru forréttindi að fá að taka þátt í að stofna stúku.

Þegar stúkan Fjölnir var stofnuð 25. jan. 1987, undir stjórn Vals Valssonar var ég valinn til að vera þriðji maður í fimm manna hópi siðameistara undir stjórn Hauks Bjarnasonar. Stofnendur Fjölnis voru 39, þannig að þetta var lítil stúka í fyrstu og því var lögð áhersla á að sem flestir, og helst allir mættu á fundina, og lögðu menn metnað sinn í að mæta vel. Sömuleiðis var öll embættisfærsla æfð á skipulegan hátt og voru embættismenn því vel undir störf sín búnir.

Ekki er annað að sjá en að þessi metnaður hafi haldist.

Þorsteinn Sv. Stefánsson
17.10.2015
Allur réttur áskilinn © 2002 - 2016, Frímúrarareglan á Íslandi - Bríetartúni 5 - 105 Reykjavík - Ísland
Sími: (+354) 510 7800 - Símbréf: (+354) 510 7801 - Netfang: skrifstofa@frimur.is